Stuðningsnet sjúklingafélaganna
Það getur verið hjálplegt að ræða við einhvern sem hefur gengið í gegnum svipaða reynslu og þú ert að ganga í gegnum, einhvern sem hefur þann skilning sem einungis fæst með því að upplifa hlutina sjálfur.
Stuðningsnet sjúklingafélaganna býður upp á jafningjastuðning fyrir fólk sem glímir við erfiða sjúkdóma og aðstandendur þeirra. Þeir sem veita stuðninginn eru einstaklingar sem greinst hafa með svipaða sjúkdóma eða eru aðstandendur. Allir stuðningsfulltrúar hafa lokið stuðningsfulltrúanámskeiði hjá umsjónaraðila og/eða fagaðilum Stuðningsnetsins.
Stuðningsnetið byggir á fyrirmynd frá Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra. Sjúklingafélögin hafa aðlagað námsefni og stuðningsferli að ólíkum sjúkdómum/sjúklingahópum.
Hvað er jafningi?
Jafningjar geta ýmist verið MS-greindir eða aðstandendur.
Jafningi er sá sem ljáir eyra og veitir stuðning og ráð þeim sem eru í sömu eða svipaðri stöðu og jafningi hefur sjálfur verið í.
Þinn jafningi er einhver sem er á svipuðum aldri og þú og/eða með svipaða sjúkdómsgerð. Jafningi er sá sem hefur unnið vel úr þeim erfiðu tilfinningum sem tengst geta sjúkdómnum og er sökum reynslu sinnar og góðrar úrvinnslu í stakk búin(n) að vera öðrum stuðningur og hughreystir. Margir búa yfir dýrmætri reynslu sem þeir vilja glaðir leyfa öðrum að njóta.
Námskeið fyrir jafningja
Þeim sem hafa áhuga á að gerast jafningjar er bent á að hafa samband hér.