Ósýnileg einkenni MS (Invisible Symptoms of MS)
MS-félagið í Ástralíu, MS Australia, gaf út myndband um hin ósýnilegu einkenni MS í tilefni af alþjóðadegi MS, 30. maí. Myndbandið er með íslenskum undirtexta.
Í myndbandinu, sem er um 2 mínútur að lengd, talar Sonia, kona með MS, við okkur um hin margvíslegu ósýnilegu MS-einkenni. Mörg einkenni MS-sjúkdómsins eru ósýnileg eða vekja ekki athygli, og mætir hinn MS-greindi því ýmsum fordómum frá samfélaginu, m.a. frá fjölskyldu, vinum og vinnufélögum, sem byggja á vanþekkingu og/eða skilningsleysi.
Fræðsla eykur skilning og er myndbandinu ætlað að auka skilning fólks á nokkrum þeim áskorunum sem MS-greindir mæta í daglegu lífi. Myndbandið var framleitt í nánu samráði við fólk með MS, og eru þeirra eigin orð notuð í myndinni.
Framleiðandi myndbands: Mark Campell, framkvæmdastjóri starfrænnar miðlunar MS Australia
Íslenskur undirtexti: Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi MS-félagsins
Slóð á myndbandið á YouTube er hér
(til að fá upp íslenskan undirtexta, veldu stillingar hnappinn neðst hægra megin á myndskjánum, þar undir skjátextar og að lokum íslenska.)
Lifað með MS: Flott myndband með Láru Björk Bender
MS-félag Íslands fékk kynningarmyndband að gjöf frá Öryrkjabandalagi Íslands í maí 2017, í tilefni af 55 ára afmæli bandalagsins.
„Maður þarf bara að vera jákvæður og líta á björtu hliðarnar“
Skjáskot af Láru Björk Bender á YouTube
Í myndbandinu segir ung kona, Lára Björk Bender, varamaður í stjórn MS-félagsins, frá lífi sínu með sjúkdóminn. Hvernig henni leið fyrst eftir greiningu og hvernig hún tókst á við daglegt líf í kjölfarið.
Lára fór fljótlega að stunda polefitness, sem reynir ekkert smá á styrk einstaklingsins, og segist aldrei hafa verið sterkari og hraustari heldur en hún er í dag, þrátt fyrir að vera með MS-sjúkdóminn á bakinu. Hún er nú þjálfari hjá Eríal Pole en er einnig í fullu starfi á þjónustusviði Orkuveitu Reykjavíkur.
Lára segir að hreyfing og mataræði skipti öllu máli. Það lækni ekki sjúkdóminn en hjálpi til og haldi okkur gangandi.
Myndbandið á YouTube
Myndbandið sýnir frábæra og flotta unga konu sem tekst á við erfiða greiningu með jákvæðu hugarfari og styrk.
Myndbandið var frumsýnt á alþjóðadegi MS, 31. maí 2017 og má nálgast hér.
Norræna myndbandið: My Dream is Alive
Stuttmyndin ,,My dream is alive” er samstarfsverkefni ungra fulltrúa í Norræna MS ráðinu, NMSR og gefur innsýn í líf ungs fólks með MS.
Verkefnið var stutt af Nordisk kulturfund og Norrænu ráði MS-félaga, en verkefnastjóri var Helga Kolbeinsdóttir, starfsmaður MS-félagsins og ritari NMSR. Myndin var frumsýnd í nóvember 2017.
Markmiðið með gerð myndarinnar var að gefa raunsæja mynd af því hvernig það er fyrir ungt fólk að greinast og lifa með MS í dag. Unga fólkið vildi gera mynd sem þau hefðu sjálf viljað sjá þegar þau fengu sína greiningu. Með myndinni vildu þau auka þekkingu og skilning á MS, gefa ungu fólki með MS von og sýna þeim að þau eru ekki ein.
Þátttakendur í myndinni er ungt fólk með MS frá Norðurlöndunum fimm. Fyrir hönd Íslands komu fram Eva Þorfinnsdóttir og Símon Rafn Björnsson (standa lengst til hægri).
Mjög vel gerð stuttmynd: MS og daglegt líf
Bræðurnir Daniel Kjartan og Davíð Fjölnir Ármannsynir gerðu stuttmynd fyrir Alþjóðadag MS í maí 2011 sem ber heitið MS og daglegt líf en Daníel Kjartan greindist ungur með MS.
Myndin tekur um 1 ½ mínútu í sýningu.
Skyggnst er örsnöggt inn í daglegt líf fjögurra einstaklinga með MS og nokkrar staðreyndir um sjúkdóminn settar fram á einfaldan hátt.
Undir myndinni hljómar lagið “Upp og niður stigann” í flutningi hljómsveitarinnar Sálin hans Jóns míns og Stórsveitar Reykjavíkur, sem gáfu góðfúslegt leyfi til notkunar á laginu. Sjá myndina hér og endurgerða 2018 hér.
Hér má sjá Daníel með yngri son sinn, Ísak, og Berglindi formann á Alþjóðadegi MS í maí 2011: