10% NIÐURSKURÐUR SKELFILEGUR

Verjum og sækjum velferðina

 

 

 

 

Ályktun útifundar Öryrkjabandalagsins,
BSRB,  Félags eldri borgara í Reykjavík
og Þroskahjálpar 

“Útifundur haldinn á Ingólfstorgi í Reykjavík 24. nóvember 2008 skorar á stjórnvöld að beita öllum tiltækum ráðum til að verja velferðarkerfið sem byggt hefur verið upp af almenningi á undanförnum áratugum. Þegar kreppir að í samfélaginu er mikilvægt að beita velferðarkerfinu til jöfnunar. Áralangri baráttu fyrir réttlátu þjóðfélagi má ekki kasta á glæ.

Fundurinn telur að afleiðingar 10% niðurskurðar á velferðarútgjöld ríkisins verði skelfilegar og þjónusta margra stofnana muni lamast og atvinnuleysi aukast. Fundurinn lýsir fullri ábyrgð á hendur þeim stjórnvöldum sem standa að slíkum aðgerðum.

Fundurinn krefst þess að staðið verði við lögbundin ákvæði um hækkun grunnbóta almannatryggingakerfisins nú um áramót. Þeir hópar sem þurfa að framfleyta sér af greiðslum frá almannatryggingum þola enga skerðingu þar sem greiðslurnar nægja ekki fyrir nauðþurftum.

Þeir hópar sem að þessum fundi standa bera enga ábyrgð á hruni bankakerfisins. Í okkar hópi er ekki að finna fólkið sem skammtaði sér sjálfu ríkulega og tók sér vald til að ráðskast með velferð þjóðarinnar. Við lýsum fullri ábyrgð á hendur þeim öflum sem þannig véluðu og ætlumst til að þeir axli ábyrgð á gerðum sínum enda réttlættu þeir ofurlaun sín með þeirri ábyrgð sem þeir bæru. Nú er komið að skuldadögum.

Íslenskt samfélag stendur á krossgötum. Útifundur haldinn á Ingólfstorgi í Reykjavík 24. nóvember skorar á alla landsmenn að standa saman í því að sjá til þess að hið nýja Ísland byggi á samkennd og sameiginlegri ábyrgð okkar hvert á öðru. Það að vega að núverandi velferðarkerfi er ekki fyrsta skrefið á þeirri vegferð. Verjum því velferðina sem fyrsta áfanga að bættri framtíð.”

Reykjavík, 24.11.2008

m.