10 RÁÐ FYRIR SJÚKLINGA Í SAMSKIPTUM VIÐ HJÚKRUNARFÓLK OG LÆKNA

Sem sjúklingur getur þú aukið öryggi þitt og þeirrar þjónustu sem þér er veitt á spítalanum með því að vera virkur og upplýstur af meðferðarteymi þínu.  Upplýsingar um heilbrigði, sjúkdóma og meðferð geta verið flóknar og þér framandi.  Til að skilja betur hvað er að gerast með heilsu þína er mikilvægt að þú spyrjir heilbrigðisstarfsfólk um greiningu og meðferð og til hvers sé ætlast af þér í því sambandi.

Til að vera virkur í meðferðarsambandi við lækninn, hjúkrunarfræðinginn eða annan heilbrigðisstarfsmanns þá er mikilvægt að þú…

  • Veitir heilbrigðisstarfsfólki réttar upplýsingar um heilsu þína og meðferð, t.d. varðandi þau lyf sem þú ert að taka inn
  • Spyrjir og sért  viss um að þú hafir réttan skilning á ástandi þínu.  Mikilvægt er að spyrja ef þú ert í vafa um að hafa réttan skilning á greiningu eða meðferð sem þér er veitt.  Sem dæmi má nefna undirbúning fyrir rannsóknir, rétta inntöku lyfja eða áætlun um framtíðarmeðferð.
  • Þekkir lyfin þín.  Mikilvægt er að sjúklingar fylgi leiðbeiningum varðandi lyfjatöku.  Röng lyfjameðferð getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsuna. 

Samvinna sjúklings og aðstandenda hans annars vegar og heilbrigðisstarfsmanns hins vegar byggist á því að hvorir tveggju hafi sömu upplýsingar til að byggja ákvarðanir sínar á. Því meira sem þú veist um heilsu þína, því virkari verðurðu í meðferðinni.  Því hvetur heilbrigðisstarfsfólk á Landspítala sjúklinga og aðstandendur að fara yfir sjúklingaráðin tíu og nýta þau ráð sem þar eru gefin í samskiptum sínum við heilbrigðisstarfsfólk spítalans.

Gangi þér og fjölskyldu þinni vel!  

 

Heimild: Landspítali Háskólasjúkrahús:  http://www.landspitali.is/?pageid=17093+

 

Sjá 10 RÁÐ FYRIR SJÚKLINGA  í pdf hér

 

Frekari upplýsingar fyrir sjúklinga og aðstandendur: http://www.landspitali.is/?PageId=01efc991-d16f-463f-b085-f1bded72800e

 

 

 

 

10 RÁÐ FYRIR SJÚKLINGA  Í SAMSKIPTUM VIÐ HJÚKRUNARFÓLK OG LÆKNA

 

Vertu virkur þátttakandi í meðferðinni

 

1.      Spurðu spurninga

Spurðu ef eitthvað er óljóst eða eitthvað veldur þér áhyggjum. Ekki sætta þig við svör sem þú skilur ekki.

 

2.      Segðu frá

Mikilvægt er að fagfólk fái réttar upplýsingar. Nauðsynlegt er að láta vita af ofnæmi fyrir lyfjum, mat eða einhverju öðru og einnig ef þú átt von á barni. Gefðu einnig upplýsingar um lyfin sem þú tekur, vítamín, náttúrulyf og/eða ef þú ert á sérstöku mataræði.

 

3.      Láttu vita ef þú finnur til

Það er mikilvægt að fagfólk viti af einkennum þínum eða óvenjulegri líðan, jafnvel þó hún tengist ekki beint  veikindunum.

 

4.      Berðu kennsl á sjálfa(n) þig

Vertu viss um að nafn þitt og kennitala sé rétt hjá starfsfólki áður en rannsókn er framkvæmd, þér veitt meðferð eða gefin lyf.

 

5.      Fáðu upplýsingar um meðferðina

Ef þú þarft á meðferð eða rannsókn að halda er gott að ræða við fagfólk áður en hún er framkvæmd. Það er mikilvægt að skilja tilgang rannsókna og niðurstöður þeirra.

 

6.      Betur sjá augu en auga

Gott er að hafa einhvern nákominn hjá þér þegar þú færð upplýsingar um niðurstöður rannsókna. Það getur dregið úr líkum á misskilningi og rangtúlkun.

 

7.      Fræðsla til aðstandenda

Ef þú ert þreytt(ur) eða orkulaus þá er fagfólk tilbúið að veita þínum nánustu upplýsingar um veikindi þín og meðferð.

 

8.      Spurðu um framhald meðferðar

Áður en þú ferð af bráðamóttökunni þarftu að vita um áframhaldandi meðferð, hvar hún er veitt, af hverjum og hvert verður þitt hlutverk.

 

9.      Þekking á lyfjum

Mikilvægt er að þú þekkir lyfin sem þú notar, hvernig þau virka, hversu lengi þú átt að taka þau og hvort matur og drykkur getur dregið úr virkni lyfjameðferðar. Gott er að halda skrá yfir þau lyf sem þú tekur.

 

10.  Skrifaðu minnispunkta á meðan sjúkrahúsdvölinni stendur

       Haltu dagbók um reynslu þína í veikindum. Auk þess er gott að skrifa niður spurningar sem þú vilt fá svör við.