AÐALFUNDUR – AUKIN ÞJÓNUSTA OG RÁÐDEILD

“Starf MS-félags Íslands hefur verið með miklum blóma starfsárið 2009 – 2010,” sagði Berglind Guðmundsdóttir, formaður MS-félagsins, á aðalfundi þess, þegar hún flutti skýrslu þess s.l. laugardag. Boðið hafi verið upp á á ýmsar nýjungar og þjónustu og hefðbundnum og óhefðbundnum námskeiðum fjölgað verulega. “Ávallt er verið að leita nýrra leiða til þess að bæta þjónustu við félagsmenn og fjölskyldur þeirra”, sagði Berglind.

Sigríður Jóhannesdóttir verður áfram varaformaður og lýsti hún mikilli ánægju með starfsemi félagsins. Sigríður og Bergþóra Bergsdóttir, gjaldkeri voru endurkjörnar en Berglind Guðmundsdóttir, formaður, Sandra Þórisdóttir og Daníel Kjartan Ármannsson sitja áfram. Í varastjórn var kjörinn Njörður Helgason, en Karl Steinar Guðnason situr áfram. Margrét Pála Ólafsdóttir hætti í varastjórn, en hún var fundarstjóri aðalfundarins. Margréti Pálu var færður blómvöndur í þakklætisskyni fyrir unnin störf.

Berglind Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri, gerði grein fyrir ársreikningi og 6 mánaða uppgjöri og áætlun. Árgjald verður óbreytt eða 1500 krónur.

Samheldni var mikil á fundinum og voru allir frambjóðendur sjálfkjörnir.

Garðar Sverrisson tók til máls undir liðnum “önnur mál” og lagði til, að efnt yrði til umræðufunda þar sem menn skiptust á reynslu sinni af samskiptum við lækna og tryggingakerfið.

Þess er vert að geta, að Maríu Þorsteinsdóttur, fundarritara aðalfunda, voru færð blóm í þakklætis- og viðurkenningarskyni fyrir að hafa ávallt verið reiðubúin til að skrá greinargóðar fundargerðir aðalfunda.

Ný stjórn MS-félagsinsÍ ársskýrslu eru taldar upp “grunnstoðir” þjónustu MS-félagsins, en þær eru helztar þessar: Þjónusta Endurhæfingar MS-félagsins, félagsráðgjöf, námskeið fyrir nýgreint MS-fólk,
námskeið fyrir maka MS-fólks, útgáfa MeginStoðar, tímarits sem kemur út tvisvar á ári,
fræðslu- og kynningarfundir og heimasíða félagsins.
Einnig kom út á liðnu starfsári bókin Benjamín, mamma mín og MS.

Þá er námskeiðshald öflugur þáttur í starfi félagsins, s.s. Yoga, jafnvægis- og styrktarþjálfun í samvinnu við Reykjalund, námskeið fyrir nýgreinda, makanámskeið, HAM námskeið (Hugræn atferlismeðferð), nýtt minnisnámskeið hjá Claudiu Ósk H. Georgsdóttur taugasálfræðingi og námskeið Jónu Ingibjargar Jónsdóttur kynfræðings, MS, karlar og kynlíf. Það námskeið er einnig nýtt hjá okkur og í fyrsta sinn sem Jóna Ingibjörg heldur námskeið bara fyrir karla. Fleiri námskeið standa MS-fólki einnig til boða, s.s. námskeiðið ”Virkni og vellíðan”, sem er nýtt námskeið fyrir fólk með eldri greiningu (+5 ár), námskeiðið MS, konur og kynlíf og námskeið fyrir börn MS-fólks.

Þess er vert að nefna, að í tengslum við norrænt samstarf félagsins er fyrirhuguð víðtæk norræn könnun á notkun og upplifun MS-fólks á óhefðbundnum lækningum og er MS-félagið þátttakandi. Um er að ræða netkönnun sem kynnt verður betur þegar þar að kemur.

Þess ber að geta, að á Akureyri er stór hópur af MS-fólki sem sækir sjúkraþjálfun að Bjargi. MS-félagið styrkti hópinn á Akureyri með því að senda Sif Gylfadóttur sjúkraþjálfara norður til að kenna sjúkraþjálfurum þar svo þeir geti komið sambærilegum námskeiðum á laggirnar. Mikil ánægja er með námskeiðið meðal Norðanmanna.

Þá er ánægjulegt að greina frá því, að í skýrslu formanns kemur fram, að nú verður kleift að bjóða MS-fólki upp á niðurgreidda sálfræðiþjónustu í krafti styrks frá Pokasjóði. Það fellur í hlut Margrétar Sigurðardóttur, félags- og fjölskylduráðgjafa, að sjá um þetta verkefni fyrir hönd MS-félagsins.

Á vegum MS-félagsins er starfandi svokallaður “lyfjahópur”, sem hefur það verkefni með höndum að fylgjast með öllu því nýjasta sem er að gerast í heimi MS-lyfjarannsókna. Baráttan fyrir Tysabri-lyfjagjöf heldur áfram. MS félagið hefur verið virkt í norrænu samstarfi á síðsta ári og á þeim vettvangi er m.a. rætt um aðgang og kostnað við Tysabri. Fulltrúar úr stjórn og lyfjahópi MS-félagsins hafa á undanförnu starfsári heimsótt MS-fólk og aðstandendur víðs vegar um landið. Áformað er að heimsækja Selfoss 30. þessa mánaðar og Akureyri þ. 6. október.

Alþjóða MS dagurinn var haldinn hátíðlegur öðru sinni snemmsumars og var mæting mjög góð. “Í tilefni dagsins var einnig farið í landssöfnun meðal almennings, rétt eins og árið áður. Þessi söfnun er orðin þungamiðjan í fjáröflun félagsins og er fyrirhugað að slík söfnun verði árviss viðburður,” sagði Berglind Guðmundsdóttir á aðalfundinum.

Nú á dögunum bar það svo til tíðinda, að 4 sjálfboðaliðar og hugsjónamenn komu fljúgandi frá New York borg yfir hafið til Reykjavíkur (með viðkomu í Kanada og á Grænlandi) undir slagorðinu FLY FOR MS (Flogið í þágu MS). Allstór hópur MS-fólks tók á móti þeim á Reykjavíkurflugvelli. Margrét Kjartansdóttir, sem býr í New York, skipulagði Íslandslegg Evrópuheimsóknar og áheitasöfnunar fjórmenninganna.

Forsenda öflugs starfs MS-félagsins í þágu félaga sinna er traustur fjárhagsgrundvöllur. Staða félagsins er allgóð og í skýrslu sinni sagði Berglind formaður eftirfarandi um varasjóð félagsins:

“MS félagið hefur lagt áherslu á ítrustu ráðdeildarsemi með fjármuni félagsins. Fjársafnanir hafa gengið ótrúlega vel miðað við aðstæður, sem þakka má góðri kynningu félagsins út á við undanfarin ár og þeirrar virðingar og trausts, sem félagið nýtur meðal almennings.
Einu föstu tekjustofnar félagsins eru félagsgjöldin, sem eru eins og ykkur er kunnugt 1.500 kr/mann/á ári. Framlag ríkisins á síðasta ári var kr. 600.000. Í ljósi aðstæðna og skuldbindinga félagsins á félagið í varasjóði upphæð sem samsvarar rekstrarkostnaði félagsins ásamt grunnþjónustu í eitt ár.”

Þá sagði Berglind Guðmundsdóttir, að “Metnaður og einhugur hefur einkennt starfsárið, enda er stjórn, nefndum, starfsfólki félagsins og sjálfboðaliðum annt um hag og velferð félagsmanna, sem og orðspor félagsins. MS-félag Íslands byggir starfsemi sína að stærstum hluta á frjálsum fjárframlögum velviljaðra einstaklinga og fyrirtækja. Það er því grundvallaratriði, að félagið sé vel kynnt út á við, þekkt fyrir starfsemi sína og baráttu, orðspor þess sé gott og hafi orð á sér fyrir ráðdeild og skynsemi við meðferð fjármuna. Það er hafið yfir allan vafa að okkur hefur tekist vel til í þessum efnum og lykilatriði, að svo verði áfram.”

Með þessum orðum þakkaði hún fyrir hönd stjórnar og starfsfólks félagsmönnum einkar ánægjulegt samstarf á árinu. – halldorjr@centrum.is  

Aðalfundur MS-félagsins 18. september 2010 – Ársskýrsla
Fundargerð aðalfundar.