AÐALFUNDUR MS-FÉLAGSINS Á LAUGARDAG

 

Næstkomandi laugardag þ. 31. október verður aðalfundur MS-félagsins. Að þessu sinni verða þau tímamót, að kjörinn verður nýr formaður í stað Sigurbjargar Ármannsdóttur, sem hverfur úr embætti eftir að hafa stýrt félaginu traustum höndum í sex ár samfellt.

Þegar þetta er skrifað er einungis vitað af framboði Berglindar Guðmundsdóttur til formanns, en hún hefur fram til þessa setið í stjórn félagsins og gegnt embætti gjaldkera. Aðalfundurinn verður í MS-húsinu og hefst kl. 14.

Á dagskrá fundarins verða annars vegar venjuleg aðalfundarstörf og hins vegar önnur mál. Samkvæmt lögum félagsins má formaður ekki sitja lengur en í sex ár. Af þeim sökum hverfur Sigurbjörg úr formannshlutverkinu og gengið verður til kosninga um nýjan formann.

Sigurbjörg Ármannsdóttir, form. MS félagsinsÍ tíð Sigurbjargar hafa orðið miklar breytingar á starfsemi MS-félagsins og það eflzt að öllum mun. Innra starf MS-félagsins hefur stóreflzt, erlend samskipti verið öflug og nýbygging risið við MS-húsið. Í fyrstu gegndi Sigurbjörg starfi framkvæmdastjóra félagsins í sjálfboðavinnu samhliða formannshlutverkinu, en á endaspretti formannsferilsins stóð hún fyrir því, að ráðinn var sérstakur launaður framkvæmdastjóri í hálft starf, nánar tiltekið 2. júní 2008. Ekki má gleyma mikilvægu hlutverki Sigurbjargar sem öflugur formælandi MS-félagsins.

Húsið verður opnað kl. 13 á laugardaginn og eru félagsmenn beðnir að mæta tímanlega. Fólk er vinsamlegast beðið að hafa í huga að aðeins þeir, sem greitt hafa félagsgjöld hafa atkvæðisrétt á aðalfundinum.

Kaffi og léttar veitingar verða í boði félagsins.

Laganefnd MS-félagsins leggur fram eftirfarandi tillögur að lagabreytingum:

1. Við 1. grein bætist klausa um að félagið sé aðili að alþjóðlegum samtökum MS-félaga.

2. Við 2. grein bætist við a) lið að félagsstarfsemin sé um land allt og nýr liður, e) um að félagið sé málsvari félagsmanna gagnvart hinu opinbera.

3. 5. grein breytist þannig að boða skuli aðalfund með í það minnsta tveggja vikna fyrirvara og að framboð skuli hafi borist skrifstofu eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Jafnframt að atkvæðisrétt á aðalfundi hafi þeir sem skráðir séu í félagið eigi síðar en viku fyrir aðalfund og séu skuldlausir. Hver atkvæðisbær maður hafi eitt atkvæði og ráði afl atkvæða úrslitum mála, nema annars sé getið í lögum félagins.

4. 6. grein breytist þannig að í c) lið er „til afgreiðslu“ eytt. Nýjum lið bætt inn og verður d) liður, svohljóðandi: Umræður og afgreiðsla á skýrslu stjórnar og ársreikningum. Lið h) verði eytt. Lið i) verði breytt þannig að fulltrúarnir séu kosnir til 2ja ára. Heiti annarra liða breytist svo í samræmi við fyrrnefndar breytingar.

5. Í 8. grein verði villa löguð, þ.e. „hlutum“ verði „hluta“.

6. 9. grein verði breytt þannig að allir stjórnarmenn séu kosnir til 2ja ára, einnig varamenn, en þó einungis annar varamaður í einu.

7. Við 11. grein bætist „þ.m.t. ráðningu framkvæmdastjóra“ á eftir „ákvarðanir um starfsemi þess“.

8. Í 12. grein verði villa löguð, þ.e. „stjórnafunda“ verði „stjórnarfunda“.

9. 14. grein verði felld brott.

10. 15. grein verði 14. grein en óbreytt að öðru leyti.

11. 16. grein verði 15. grein og dagsetning breytist í 31. október 2009.

Skýringar við nokkra liði breytingartillagna:
Laganefnd þykir nauðsynlegt að breyta nokkrum greinum í lögum félagsins, einkum þeim sem snúa að boðun aðalfundar og kosningu stjórnarmanna. Í ljósi þess að lagabreytingar¬tillögur eru nú lagðar fram er einnig skerpt á nokkrum atriðum og villur lagaðar.

Breytingar á 5. gr. felast í því að boða aðalfund með 2ja vikna fyrirvara, krafa er gerð um að framboð skuli berast skrifstofu eigi síðar en viku fyrir aðalfund og einnig að atkvæðisbærir félagsmenn skuli hafa skráð sig í félagið viku fyrir fundinn. Þessi atriði gera alla skipulagningu aðalfundar auðveldari og markvissari án þess að ganga á rétt félagsmanna, þar sem einungis er um að ræða eina viku sem frestur til framboðs og skráningar í félagið færist fram.

Breytingar á 6. grein lúta einkum að því að aðlaga lögin að því skipulagi sem þróast hefur í afgreiðslu mála. Með þessum breytingum þarf ekki að bera upp sérstaka breytingartillögu um röð mála á dagskrá á hverjum aðalfundi. Í lið i) er að auki gerð tillaga um að fulltrúar í fulltrúaráð ÖBÍ verði kosnir til 2ja ára, þar sem æskilegt er að þeir fulltrúar setji sig vel inn í málefni ÖBÍ og samfella sé í því starfi.

Breytingar á 9. gr. samræma skipunartíma allra stjórnarmanna félagsins. Eðlilegt er að allir stjórnarmenn hafi sama skipunartíma, þ.m.t. formaður og varamenn.