Advania færir MS-félaginu afmælisgjöf

Advania hefur fært MS-félaginu DELL skjá fyrir fundarherbergi að gjöf í tilefni 50 ára afmælis félagsins. 

 

Bréf með gjöf Advania:

 

50 ára óeigingjarnt starf MS-félagsins

 

Advania óskar MS félaginu til hamingju með 50 ára starf. Félagið hefur alla tíð unnið ötullega að velferð þeirra sem glíma við MS-sjúkdóminn.

Markmið félagsins er að veita stuðning og stuðla að öflugri félags- og fræðslustarfsemi. Félagið hefur verið málsvari félagsmanna gagnvart hinu opinbera.

Helsti hvatamaður að stofnun MS-félags Íslands var Kjartan R. Guðmundsson yfirlæknir á taugasjúkdómadeild Landspítalans en hann var lengi vel sá maður á landinu sem bjó yfir mestri þekkingu á sjúkdómnum.

Frá því félagið var stofnað 20. september 1968 hefur það áorkað mörgu sem gjörbreytt hefur aðstæðum þeirra sem greinast með MS. Helst ber að nefna byggingu MS-hússins við Sléttuveg þar sem starfsemi félagsins er að finna; skrifstofu, dagvist og endurhæfingu. Félagið hefur notið velvildar og fjárhagslegra styrkja frá góðgerðarfélögum, almenningi og opinberum aðilum en einu föstu tekjur félagsins eru félagsgjöld.

Advania óskar félaginu til hamingju með hálfrar aldar óeigingjarnt starf og færir því að gjöf DELL skjá fyrir fundarherbergi MS-félagsins. 

 

 

MS-félagið þakkar Advania kærlega fyrir gjöfina, sem mun koma að góðum notum á fundum og í fræðslustarfsemi félagsins.

 

 

 

BB