ÆFINGAR OG TEYGJUR REYKJALUNDAR

Það eru gömul vísindi og ný að allir hafa gott af æfingum og vöðvateygjum. Þær er hægt að gerast nánast hvar sem er og  hvenær sem er. Á Reykjalundi er mikið lagt upp úr því að fólk teygi á vöðvum í lok hvers þjálfunartíma. MS-vefurinn hefur fengið heimild til að birta æfingablöð Reykjalundar hér á vefnum.

 

Gott er að gefa sér smá tíma daglega til að gera nokkrar æfingar eða teygjur. Vöðvar okkar MS-fólks dragast saman þegar við förum að hreyfa okkur minna og þá gerum við best í því að teygja á þeim aftur.

 

Í grein Þórarins Sveinssonar, prófessors í lífeðlisfræði við sjúkraþjálfunarskor HÍ, Hvað eru harðsperrur? Hvað veldur þeim og hvernig má draga úr þeim?“ segir m.a. „Teygjur og léttar æfingar strax eftir átök draga oft úr harðsperrum. Menn skilja ekki til hlítar hvernig á því stendur en líklegt er að slíkt örvi blóðflæði um vöðvana og efnaskipti þeirra. Þannig minnkar bólgusvörun vöðvans og flýtt er fyrir viðgerðarferlum. Þjálfun dregur úr skemmdum sem vöðvar verða fyrir í áreynslu og þar af leiðandi harðsperrum. Þó að ekki sé vitað nákvæmlega hvernig það gerist þá er líklegt að þjálfun styrki vöðvafrumurnar og bandvefinn í vöðvunum og verji þá þannig fyrir skemmdum. Einnig gæti taugakerfið hugsanlega lært að dreifa álaginu þannig að það verði ekki of mikið á einstakar frumur.