Áskorun MS-félagsins til heilbrigðisráðherra

MS-félag Íslands sendi meðfylgjandi áskorun til heilbrigðisráðherra

 

ÁSKORUN TIL HEILBRIGÐISRÁÐHERRA

 

MS-félag Íslands skorar á heilbrigðisráðherra að hafna þeirri fyrirætlan Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) að segja upp núgildandi rammasamningi við sjúkraþjálfara fyrir lok mánaðarins, með sex mánaða fyrirvara, geri ráðherra ekki athugasemdir. Ástæða SÍ fyrir boðaðri uppsögn er að kostnaður vegna sjúkraþjálfunar hafi farið fram úr fjárlögum.

Meginmarkmið reglugerðar sem undirrituð var af heilbrigðisráðherra 7. apríl 2017, um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu, var að koma á fót jöfnunarkerfi til meðal annars að verja þá sem mest þyrftu á heilbrigðisþjónustu að halda fyrir háum útgjöldum. Í því fólst að þeir sem mikið þyrftu á heilbrigðisþjónustu að halda og höfðu greitt umtalsverðan kostnað í fyrra kerfi myndu greiða minna en áður. Boðað var að ríkið legði fram aukna fjármuni til hins nýja kerfis.

Ekki ætti að koma á óvart að kostnaður vegna sjúkraþjálfunar hafi aukist með nýju greiðsluþátttökukerfi. Með lækkun kostnaðar vegna þjálfunar og endurhæfingar sjá nú fleiri sér fært að nýta sér þjónustuna.

MS er einn algengasti taugasjúkdómur sem leggst á ungt fólk og er enn ólæknandi. Líkamleg einkenni geta verið erfiðleikar við gang, dofi, mikil þreyta, sjóntruflanir, breytingar á jafnvægisskyni, minni máttur, skyntruflanir, skerðing á samhæfðum hreyfingum, vöðvaspenna, spasmi og verkir. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þjálfunar fyrir fólk með MS.

Sjúkraþjálfarar eru sérfræðingar í því að greina og meta hreyfitruflanir og líkamlega færni, setja fram þjálfunaráætlun og þjálfa einstaklinga, ásamt því að meta þörf fyrir stoð- og hjálpartæki.

Lykilatriði fyrir bætta færni og lífsgæði einstaklinga með MS er að fá sértæka sjúkraþjálfun við hæfi, óháð fjárhag. Aukið aðgengi að sjúkraþjálfun er því til þess fallið að auka virkni og bæta heilsu einstaklinga með MS sem dregur úr kostnaði og álagi á heilbrigðiskerfið til lengri tíma litið. MS-félag Íslands áréttar því mikilvægi þess að rammasamningur SÍ við sjúkraþjálfara haldi áfram gildi sínu enda hefur samningurinn aukið verulega aðgengi fólks að nauðsynlegri þjálfun og endurhæfingu.

 

Reykjavík, 23. febrúar 2018
f.h. MS-félags Íslands

______________________________
Björg Ásta Þórðardóttir, formaður

 

 

 

Mynd