Barneignir og MS: Viðtal við Guðrúnu Erlu og Jóhannes á RÚV

Mynd: Stoltir foreldrar, Guðrún Erla og Jóhannes, með Aþenu Carmen

 

MS er einn algengasti taugasjúkdómur sem leggst á ungt fólk og greinast flestir á aldrinum 20-40 ára, á því aldursbili þegar margir geta hugsað sér að stofna fjölskyldu. Margir spyrja sig erfiðra spurninga eins og; „Get ég yfirhöfuð eignast barn fyrst ég er með MS?“ eða „Hefur MS neikvæð áhrif á fóstur og meðgöngu?“ Stutta svarið er að það er nákvæmlega ekkert því til fyrirstöðu að eignast barn þrátt fyrir MS og MS hefur engin áhrif á fóstrið.

Guðrún Erla Sigurðardóttir, nýbökuð móðir, og eiginmaður hennar, Jóhannes Geir Númason, voru í frábæru viðtali hjá fjölmiðlamanninum Mikael Torfasyni á dögunum. Hlusta má á viðtalið í Sarpi RÚV hér (mín. 03.30 – 20.30).

 

Guðrún Erla, Jóhannes og litla Aþena Carmen

Guðrún Erla og Jóhannes eignuðust Aþenu Carmen 27. júlí á síðasta ári. Guðrún Erla er 39 ára og greindist með MS 2001. Hún hefur notast við hjólastól sl. 2-3 ár en það aftraði þeim hjónum þó ekki frá því að huga að barneignum. Guðrúnu leið vel á meðgöngunni sem gekk vel. Skiptar skoðanir voru um hvort best væri fyrir Guðrúnu að eiga á náttúrulegan hátt eða með keisara en Guðrún ákvað að taka fyrrnefnda kostinn og sá ekki eftir því, því fæðingin gekk mjög vel og eðlilega fyrir sig.

Guðrún fékk ekki MS-lyf á meðgöngunni og fer ekki aftur á lyf fyrr en hún hættir með Aþenu Carmen á brjósti. Áður en Guðrún varð barnshafandi var hún á MabThera.

 

Ekkert mælir gegn barneignum

Það er ekkert sem mælir gegn barneignum, þó annar aðilinn hafi MS, eins og þau hjónin komust að eftir samtöl sín við meðal annars lækna sem þau töluðu við í aðdraganda þess að reyna að eignast barn. 

Hjá flestum konum með MS gengur meðgangan nefnilega fyrir sig eins og hjá öðrum barnshafandi konum. Þær geta fengið dæmigerð MS-einkenni á meðan að á meðgöngunni stendur, eins og þreytu, hitasveiflur, svefnerfiðleika og þvagblöðruvandamál, en þau einkenni eiga sér hins vegar upptök í sjálfri meðgöngunni, á sama hátt og hjá öðrum konum.

Einnig eru konur með MS ekki líklegri til að fá fósturlát eða að barnið hafi fæðingargalla, borið saman við heilbrigðar konur.

Fæðingin sjálf getur þó valdið meiri þreytu hjá konum með MS en hjá öðrum konum en það er þó mjög einstaklingsbundið. Umönnun barnsins getur einnig reynt meira á en þá er góður stuðningur maka og fjölskyldu ómetanlegur.

 

Áhrif meðgöngu á sjúkdómsferli konunnar

Rannsóknir hafa sýnt að ófrískar konur með sjúkdómsgerðina MS í köstum upplifa færri köst en vanalega, sérstaklega á síðasta þriðjungi meðgöngunnar. Fyrstu mánuði eftir fæðingu geta köstin hins vegar aukist aftur. Orsök þessa er talin vera hormónabreytingar vegna þungunarinnar. Þegar hormónabreytingarnar ganga yfir verður fjöldi kasta eins og var áður, fyrir þungunina. Allt er þetta þó mjög einstaklingsbundið.

Rannsóknir hafa einnig sýnt að meðganga hefur ekki neikvæð áhrif á sjúkdómþróun og eykur ekki líkur á síðkominni versnun MS.

 

Lyf á meðgöngu og með brjóstagjöf

Konum með MS (og jafnvel körlum) er að jafnaði ráðlagt að hætta á lyfjameðferð áður en barneignir eru reyndar eða um leið og þungunar verður vart til að útiloka lyfjaáhrif á fóstrið.

Það er þó verið að rannsaka áhrif ýmissa lyfja á meðgöngu og brjóstagjöf.

Í maí 2017 tilkynnti lyfjafyrirtækið TEVA að gögn úr alþjóðlegum lyfjagátagrunni fyrirtækisins, sem borin voru saman við tvo stóra bandaríska og evrópska gagnagrunna, bendi til þess að konur með MS, sem sprauta sig daglega með 20 mg/ml Copaxone á meðan á meðgöngu stendur, séu ekki í meiri hættu á að fæða börn með fósturgalla heldur en konur almennt. Sjá frétt hér.

Alltaf er þó ráðlegt að spyrja taugalækni eða MS-hjúkrunarfræðing ráða um lyfjameðferð ef par, þar sem annar hvor aðilinn er með MS og er á lyfjameðferð, hyggur á barneignir eða kona er þegar orðin ófrísk. Læknir getur þá metið hvort ávinningur af lyfjameðferð vegi upp á móti áhættu af notkun þess, hvort breyta þurfi lyfjameðferð eða hversu lengi er ráðlagt að vera án lyfja áður en barneignir eru reyndar – og fyrir konur hvenær þær byrji að taka aftur lyf eftir barnsburð.

 

 

Heimild hér, hér, hér og hér

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi

 

Frekari fróðleikur: