„CRISPR“ – spennandi eða óhugnanleg tækni?

Í sjónvarpi RÚV 15. ágúst sl. var á dagská heimildarþáttur BBC um CRISPR, vísindalega uppgötvun sem gæti breytt lífi allra og alls hér á jörðinni. Um er að ræða framför í erfðabreytingatækni sem gæti falið í sér lækningar og bólusetningar, þar á meðal við MS, og einstaklingsbundna meðferð við banvænum sjúkdómum.

Upgötvunin sem gerð var árið 2012 er þó ekki áhættulaus og vekur upp margar spurningar, ekki síst siðferðilegar. Hvaða ófyrirséðar afleiðingar getur þessi erfðabreytingatækni haft á vistkerfi jarðar, fæðuöryggi og tilvist mannsins eins og við þekkjum hana í dag?

Þátturinn er aðgengilegur á Sarpi RÚV til þriðjudagsins 29. ágúst, sjá hér.

Í þættinum er meðal annars komið inn á þýðingu CRISPR-tækninnar fyrir sykursýki 1, líffæraflutninga, HIV/alnæmi og dreyrasýki og hvernig útrýma megi sjúkdómum eins og malaríu og Zika-veirunni. Einnig er fjallað um erfðabreytingar sem nú þegar eru gerðar á húsdýrum og vísindarannsóknir á fósturvísum manna.

 

En hvað er CRISPR?

CRISPR er sammstöfun fyrir Clusters-Regularly-Interspaced-Short-Palindromic-Repeats (klasar reglulega raðaðra stuttra samhverfra endurtekninga).

Með CRISPR-erfðabreytingatækninni er hægt að endurrita DNA-erfðaefni hvaða lífveru sem er. DNA er það efni í lífverunni sem gerir hana að því sem hún er og ákvarðar lífsferil hennar. Hver mistök eða ritvilla í DNA hefur áhrif, til dæmis á hvort lífveran veikist eða er á einhvern hátt afbrigðileg frá norminu.

Með CRISPR er vísindamönnum gert kleift að lesa allt erfðamengið og nota svo sameindaskæri til að klippa báða DNA-þræðina og eiga við að vild. Þannig er hægt að hafa áhrif á þróun lífverunnar, hvort sem er til að eyða einhverjum eiginleikum hennar, breyta á einhvern hátt, lagfæra eða betrumbæta. Tæknin þykir afar einföld í framkvæmd og er notuð við rannsóknir á dýrum, plöntum, fólki, sveppum, bakteríum eða hvaðeina annað sem rannsóknir eru gerðar á. 

 

Verður bólusett við MS?

Í þættinum er rætt við dr. Fyodor Urnov hjá líftæknifyrirtækinu Sangamo BioSciences. Hann segir sjúkdómsvarnirnar, sem eru í erfðamengi mannsins og draga úr næmi fólks fyrir hjarta- og æðasjúkdómum og taugahrörnunarsjúkdómum, vera þekktar. Þegar tækninni fleyti fram sjái hann ekkert því til fyrirstöðu að þróa erfðabóluefni sem byggi á þessari þekkingu. Erfðabreytingar til bólusetningar gegn hjarta-, æða- eða taugasjúkdómum séu því ekki svo fjarlæg framtíðarsýn.

 

Öld líffræðinnar

Jennifer Doudna, prófessor við Kaliforníu-háskóla og annar vísindamannanna sem uppgötvaði CRISPR, telur víst að lækning finnist við sjúkdómum, nú á öld líffræðinnar.

Það er ástæðulaust að halda annað en að hún hafi rétt fyrir sér og vonandi er lækning við MS skammt undan.

 

 

Heimild: Tímamótauppgötvun: Genin endurhönnuð (e. Medicine’s Big Breakthrough: Editing Your Genes), heimildarþáttur BBC frá 2016, sýndur á RÚV 15. ágúst 2017. Þýðandi María Helga Guðmundsdóttir. Sjá hér.

Mynd: Creative Common leyfi

 

Bergþóra Bergsdóttir