ECTRIMS 2019: D-vítamín fyrir MS-greinda? (fyrri hluti)

D-vítamín er m.a. mikilvægt fyrir starfsemi, uppbyggingu og þroska taugakerfisins. Margar farandfræðilegar rannsóknir benda til þess að lágt magn D-vítamíns í blóði auki hættuna á að fá MS en minna er vitað um áhrif eða ávinning D-vítamíns fyrir einstaklinga sem þegar eru með sjúkdóminn og þá hvort D-vítamín dragi úr MS-köstum og sjúkdómsframgangi.

Í þessari fyrri grein af tveimur eru dregnar saman helstu staðgreindir um gagnsemi D-vítamíns og tengsl þess við leitina að orsök MS-sjúkdómsins, sem lesa má um í greinum Sóleyjar Þráinsdóttur, taugalæknis, í Meginstoð 1. tbl. 2013 og Selmu Margrétar Reynisdóttur í MeginStoð 2. tbl. 2017.

Seinni greinin tekur saman álit þriggja fræðimanna, sem hittust á ECTRIMS-ráðstefnunni(1) 11.-13. september sl., þar sem þeir skiptust á skoðunum um áhrif D-vítamíns á MS-greinda og hvort mæla eigi með því að MS-greindir hugi sérstaklega að D-vítamíninntöku sinni.

******

MS-sjúkdómurinn er algengastur í norðlægum og suðlægum löndum og eykst tíðnin eftir því sem fjær dregur miðbaug. Því hefur verið horft til sólarinnar þegar leitað er orsaka sjúkdómsins en fólk sem býr á norður- og suðurslóðum nýtur minni sólar en þeir sem búa nær miðbaug. Í þessu samhengi kemur umræðan um D-vítamínið upp en það myndast í húðinni fyrir áhrifum frá geislum sólar.

 

Skv. grein Sóleyjar Þráinsdóttur, taugalæknis, í Meginstoð 1. tbl. 2013, tengist ákveðinn genabreytileiki bæði MS og D-vítamínskorti. Það bendi til þess að lágt magn D-vítamíns í blóði sé áhættuþáttur MS en rannsóknir sýni að MS-einstaklingar hafi lægra magn D-vítamíns í blóði samanborið við heilbrigða. Því telur Sóley mikilvægt að fá sólargeislun í æsku og nota ekki alltaf sólarvörn. Það yrði þó auðvitað að passa að húðin brynni ekki og athuga að mikil sólargeislun tengist myndun húðkrabbameins. Mælir Sóley með töku lýsis eða töku D-vítamíntaflna yfir vetrarmánuðina.

 

Í grein Selmu Margrétar Reynisdóttur í MeginStoð 2. tbl. 2017, kemur fram að D-vítamín geti verið af tveimur gerðum: D2-vítamín, sem myndast í plöntum, og D3-vítamín sem myndast í gegnum húðina. Báðar gerðirnar myndast vegna útfjólublárra geisla sólarinnar.

Ennfremur kemur fram að með aukinni inniveru nútímamannsinsD-vítamín og aukinni notkun sólarvarna sé upptaka D-vítamíns frá sólinni takmörkuð. Sólarvörn með SPF-stuðulinn 15 hindri u.þ.b. 99% af mögulegri D-vítamínframleiðslu húðarinnar. Hægt sé að fá D-vítamín í gegnum matvæli og með bætiefnum eins og lýsi, vítamínpillum, munnúða og dropum. D2 er aðallega að finna í D-vítamínbættum mjólkurvörum en D3 aðallega í feitum fiski (laxi, bleikju og lúðu), lýsi og í eggjarauðum. Í grein Selmu er að finna meðfylgjandi töflu yfir fæðutegundir sem innihalda D-vítamín.

Þá segir að D-vítamín stjórni u.þ.b. 200 genum sem samsvari um 3% af genamengi mannsins. Því sé nægileg D-vítamíninntaka mikilvæg fyrir starfsemi fjölmargra vefja og líffæra líkamans, þ. á m. hjarta- og æðakerfið, vöðva, taugar, ónæmiskerfið og beinin. Einnig geti D-vítamínskortur aukið líkur á beinþynningu og beinbrotum hjá fullorðnum.

Ráðlagðir dagskammtar D-vítamíns, að teknu tillitiD-vítamín til íslenskra aðstæðna, þar sem miðað er við færri sólardaga en í nágrannalöndum okkar, má sjá í töflunni hér til hliðar:

 

Hollráð Landlæknis um D-vítamín

  • Taka inn D-vítamín sem fæðubótarefni, annaðhvort lýsi eða D-vítamíntöflur.
  • Nýta sólarljósið þegar færi gefst og njóta þess að vera úti án þess þó að brenna.
  • Borða feitan fisk að minnsta kosti einu sinni í viku. Feitur fiskur er náttúruleg uppspretta D-vítamíns.
  • Neysla á D-vítamínbættum vörum getur stuðlað að bættum D-vítamínhag.
  • D-vítamín er fituleysanlegt vítamín og getur safnast upp í líkamanum. Þess vegna eru gefin út viðmið um efri mörk. Skammta umfram efri mörk ætti aðeins að taka í samráði við lækni.

 

Lokaorð

Hægt er að mæla magn D-vítamíns með blóðprufu. Á grundvelli niðurstöðu blóðprufunnar er rétt að ákveða, í samráði við lækni eða hjúkrunarfræðing, hvort rétt sé að taka aukalega, og þá hversu mikið, D-vítamín umfram ráðlagðan dagskammt Landlæknis, sjá töfluna hér fyrir ofan.

 

Heimildir:

 

Mynd

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi

 

(1)  ECTRIMS

ECTRIMS (European Committee for Treatment and Research in Multiple Sclerosis) er stærsta alþjóðlega ráðstefnan sem helguð er grunn- og klínískum rannsóknum á MS. Fundurinn í ár fór fram í Stokkhólmi dagana 11. – 13. september.