ECTRIMS 2019: D-vítamín fyrir MS-greinda? (seinni hluti)

Rannsóknir sýna að MS-greindir hafa lægra magn D-vítamíns í blóði samanborið við heilbrigða en D-vítamín er mikilvægt m.a. fyrir starfsemi, uppbyggingu og þroska taugakerfisins.

Í þessari seinni grein af tveimur eru tekin saman álit þriggja fræðimanna, sem hittust á ECTRIMS-ráðstefnunni(1) 11.-13. september sl. Þar skiptust þeir á skoðunum um áhrif D-vítamíns á MS-greinda og hvort mæla eigi með því að MS-greindir hugi sérstaklega að D-vítamíninntöku sinni.

Skoðanir fræðimanna eru skiptar, þá sérstaklega þegar kemur að ávinningi af D-vítamíninntöku fyrir þá sem þegar eru með sjúkdóminn. Margar farandfræðilegar rannsóknir benda til þess að lágt magn D-vítamíns í blóði auki hættuna á að fá MS en minna er vitað um áhrif eða ávinning D-vítamíns fyrir MS-greinda og þá hvort D-vítamín dragi úr MS-köstum og sjúkdómsvirkni.

Hvernig er gildi D-vítamíns mælt?

Lifrin sér um að meðhöndla D-vítamín og breytir því í sameind sem heitir 25-hydroxyvitamin D (25-OHD). Þessi sameind er svo flutt til nýrnanna sem sjá um að umbreyta henni í virkt form D-vítamíns, þ.e. í þá sameind sem myndar áhrif vítamínsins í líkamanum. Þessi sameind (25-OHD) er sú sem mæld er með blóðprufu. Birt viðmiðunargildi fyrir 25-OHD hjá Landspítala eru 50-150 nmól/L.

 

Fræðingarnir á ECTRIMS

Alberto Ascherio, MD, vísindamaður og prófessor við Harvard T.H. Chan School of Public Health í Boston

Fyrirlestur Ascherio bar heitið MS patients should be advised to take vitamin D for MS.

Ascherio greindi m.a. frá niðurstöðum rannsókna sem sýndu fram á að sjúkdómsgangur þeirra nýlega greindu einstaklinga, sem þátt tóku í rannsókninni og sem höfðu mikið/nægjanlegt magn D-vítamíns í blóði, væri vægari en annarra. Því mætti halda fram mikilvægi þess að MS-greindir taki D-vítamín, sérstaklega þeir sem væru snemma í sjúkdómsferlinu. Ascherio sagði þó fleiri rannsóknir á þessu sviði vanta enda mörgum spurningum ósvarað.

Almennt mæli hann með 3.000 ae af D3 vítamíni á dag. Sú skammtastærð sé öruggt, engar vísbendingar séu um verulegar aukaverkanir og líkurnar á ávinningi séu nokkuð góðar.

 

Ellen Mowry, MD, vísindamaður og prófessor í taugafræði við Johns Hopkins háskólann í Baltimore

Fyrirlestur Mowry bar heitið Comments on the use of vitamin D in clinical practice, pros and cons.

Mowry segist óhrædd við að segja sjúklingum sínum frá skorti á sönnunum um gagnsemi D-vítamíns fyrir MS-greinda. Hún ráðleggur þó sjúklingum sínum, sem hafi ekki nægjanlegt magn D-vítamíns í blóði, að taka D-vítamín til að ná lágmarksgildum.

Mowry telur rétt að gefa ekki almennar ráðleggingar um ákveðinn dagskammt heldur vill hún meðhöndla hvern og einn einstaklingsbundið og fylgja viðkomandi eftir þar til lágmarksgildum sé náð. Þá eigi að draga úr inntöku eða hætta, því niðurbrotsferli D-vítamíns sé ekki jafn áhrifaríkt hjá MS-greindum og hjá heilbrigðum einstaklingum.

Hún mælir því með hóflegri D-vítamíninntöku en aðvarar mót háskammta D-inntöku. Mjög stórir skammtar af D-vítamíni virðist ekki gefa aukinn ávinning, háskammta inntaka getur jafnvel verið skaðleg og langtímaáhrif eru óþekkt.

 

Joost Smolders, MD, PhD og taugalæknir við hollenska Canisius Wilhelmina sjúkrahúsið og vísindamaður við hollensku stofnunina fyrir taugavísindi (NIN)

Fyrirlestur Smolders bar heitið Why vitamin D supplementation is not a general advice in MS.

Smolders telur að þær rannsóknir sem gerðar hafa verið hingað til um áhrif D-vítamíns á sjúkdómsgang MS-greindra ekki sýna nógu afdráttarlausar niðurstöður. Því sé ekki hægt að ráðleggja inntöku D-vítamíns með það að markmiði að bæta sjúkdómsframvindu til lengri tíma. Erfitt sé að túlka niðurstöður rannsókna, ekki sé vitað hverjum viðbótar D-vítamíninntaka kemur helst að gagni eða í hve miklu magni sú inntaka ætti að vera.

Smolders telur þannig að ekki ætti að mæla almennt með töku D-vítamína fyrir MS-greinda en hins vegar sé í lagi fyrir þá sem er lágir í D að taka D-vítamín til að koma í veg fyrir beinþynningu.

 D-vítamín fyrir MS-greinda?

Læknarnir þrír voru allir sammála um skort á rannsóknum sem sýndu fram á áhrif D-vítamíns á MS-köst og sjúkdómsgang en að rétt væri að a.m.k. þeir sem væru lágir í D tækju inn D-vítamín þar til lágmarki væri náð.

Eins og fram kemur í fyrri greininni um D-vítamínið er hægt að mæla magn D-vítamíns með blóðprufu.

Á grundvelli niðurstöðu blóðprufunnar er rétt að ákveða, í samráði við lækni eða hjúkrunarfræðing, hvort rétt sé að taka aukalega D-vítamín og þá í hve miklu magni.

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi

Heimildir:

hérhér,hérhérhér og hér

 

NB!

(1)  ECTRIMS

ECTRIMS (European Committee for Treatment and Research in Multiple Sclerosis) er stærsta alþjóðlega ráðstefnan sem helguð er grunn- og klínískum rannsóknum á MS. Fundurinn í ár fór fram í Stokkhólmi dagana 11. – 13. september.

 

Mynd