EIÐI SMÁRA OG HERMANNI FÆRÐAR ÞAKKIR

Kvöldið fyrir landsleik Hollands og Íslands í knattspyrnu snemma í júnímánuði var efnt til lítillar athafnar á Hilton hótelinu í Reykjavík. Þar settu landsliðsfélagarnir og Vinir MS-félagsins, Eiður Smári Guðjohnsen og Hermann Hreiðarsson, nöfn sín undir sérhannaðar persónulegar stuðningsyfirlýsingar við baráttuna gegn MS á alþjóðavettvangi og hér heima. Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður, afhenti fótboltakempunum þakkarbréf fyrir mikilvægan stuðning, sem vakið hefur athygli út fyrir landsteinana.

Fimm manna hópur frá MS-félaginu var viðstaddur þessa ánægjulegu stund með þeim Eiði Smára og Hermanni. Í hópnum var Lalli (Lárus Jónsson), sem er feikimikill áhugamaður um knattspyrnu og fór sérstaklega vel á með honum og landsliðsköppunum. Kristján Einarsson var mættur á staðinn og tók hann myndir af undirritun og viðtöku yfirlýsinganna og afhendingu þakkarbréfs og smá þakkarvotts frá MS-félaginu.

Greint var frá stuðningi sex þekktra íþróttamanna við baráttu MS félaga um allan heim á alþjóðadegi MS þ. 27. maí hér á MS-vefnum og voru þá birtar yfirlýsingar Eiðs Smára og Katrínar Jónsdóttur, læknis og fyrirliða íslenzka kvennalandsliðsins í knattspyrni.

Í yfirlýsingu sinni segir læknirinn og íþróttakonan Katrín m.a.: “Ég lít á það sem forréttindi að fá tækifæri til að taka undir baráttu MS-sjúklinga. Mín ósk er sú að allir fái bestu og viðeigandi meðferð sem völ er á hverju sinni. Ég óska þess að MS-félaginu gangi vel í baráttu sinni.”

Í niðurlagi yfirlýsingar sinnar segir Eiður Smári: “Ég hef af eigin raun kynnst þessum sjúkdómi og séð hversu skelfilegur hann getur orðið. Það er því í fullri einlægni sem ég óska MS félaginu á Íslandi, góðs gengis á alþjóðlegum baráttudegi gegn sjúkdóminum. Og ég vona innilega, að vísindamenn eigi fljótt eftir að finna lyf sem sigrast á þessum ólæknandi sjúkdómi, “multiple sclerosis”.

Hermann Hreiðarsson skrifar undir stuðningsyfirlýsingunaSíðar sama dag, á alþjóðadegi MS, þ. 27. maí barst svo eftirfarandi stuðningsyfirlýsing Hermanns Hreiðarssonar, sem leikur með úrvalsdeildarliðinu enska Portsmouth.

Stuðningsyfirlýsing Hermanns Hreiðarssonar, leikmanns enska úrvalsdeildarliðsins Portsmouth:
“Það er algengur misskilningur að íþróttamenn, ekki sízt að við, sem höfum atvinnu af því að stunda íþróttir, leiðum lítt hugann að örlögum þeirra, sem búa við veikindi. Þetta er alrangt.

Ég geri mér grein fyrir því, að ég er mjög gæfusamur maður fyrir að hafa notið góðrar heilsu og verið hraustur í þau fjölmörgu ár, sem ég hef keppt erlendis sem atvinnumaður í knattspyrnu.

Mér er bæði ljúft og skylt að taka undir með MS-sjúklingum á Íslandi og MS-félaginu í baráttunni fyrir því að auka vitund almennings á þessum ólæknandi sjúkdómi á fyrsta alþjóðadegi MS.

Þeir sem eru með þennan hræðilega sjúkdóm eiga siðferðilegan rétt á því að fá besta lyfið, sem fáanlegt er. MS-sjúklingar eiga sama rétt til mestu hugsanlegu lífsgæða, eins og við hin, sem erum heilbrigð.”

Baráttukveðjur frá Portsmouth, Hermann Hreiðarsson

hh