EVRÓPSKA SJÚKRATRYGGINGAKORTIÐ FYRIR FERÐALANGA

Fyrir þá sem ætla til Evrópu í ferðalög ættu að muna eftir að taka með evrópska sjúkratryggingakortið til að hafa við hendina ef nýta þarf heilbrigðisþjónustu þar ytra. Það getur sparað töluverð útgjöld. Kortið er ókeypis og hægt að sækja um það á vef Sjúkratrygginga Íslands. Kortið hefur takmarkaðan gildistíma og því nauðsynlegt að huga að endurnýjun sé kort við það að renna út á tíma.

 

Tekið af vef Sjúkratrygginga Íslands:

 

Hvað gerir kortið? 

Sá sem framvísar Evrópska sjúkratryggingakortinu (ES-kortinu) ásamt vegabréfi, eða öðrum skilríkjum með mynd, hjá veitenda heilbrigðisþjónustu, t.d. lækni eða í apóteki, greiðir sama gjald og einstaklingur sem sjúkratryggður er í landinu þar sem þjónustan er veitt.  Þetta gildir um alla þjónustu sem talin er nauðsynleg miðað við tímalengd dvalarinnar.  Ef kortinu er ekki framvísað þarf viðkomandi að greiða fullt gjald og óska síðan endurgreiðslu hjá Sjúkratryggingum Íslands eða tryggingafélagi þegar heim er komið. 

Kortið gildir hjá læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum sem starfa innan hins opinbera sjúkratryggingakerfis í dvalarlandinu. Það gildir hins vegar ekki á einkareknum sjúkrastofnunum.

Við mælum með að ferðamenn hafi einnig einkatryggingu, t.d. kortatryggingu eða ferðatryggingu hjá tryggingafélagi.  ES-kortið veitir t.d. ekki rétt til greiðslu fyrir heimflutning ef ferðamaður slasast eða veikist alvarlega (sérstakar reglur gilda þó á Norðurlöndum) en tryggingafélög bæta í mörgum tilfellum slíkan kostnað.

 

 

Hvernig sæki ég um kortið?

Hægt er að sækja um kortið á heimsíðu Sjúkratrygginga Íslands eða í Réttindagátt, sjá nánar á www.sjukra.is

Ef kortið er pantað á netinu er það sent á lögheimili.  Það tekur um 7-10 daga að fá kortið sent heim svo ef viðkomandi er að fara út með skömmu fyrirvara þá getur borgað sig að sækja kortið í þjónustuverið okkar að Vínlandsleið 16.  

ES-kortið er veitt án endurgjalds.

Þeim sem ekki hafa ES-kortið meðferðis á ferðalögum innan Evrópu en sjá fram á mikinn sjúkrakostnað er ráðlagt að hafa samband við Alþjóðadeild Sjúkratrygginga Íslands (international@sjukra.is) og óska eftir bráðabirgðakorti sem sent er á viðkomandi sjúkrastofnun.

 

Á vefsíðu Sjúkratrygginga Íslands, www.sjukra.is, má sjá nánari upplýsingar um kortið, m.a. í hvaða löndum það gildir.  Einnig er þar hægt að hala niður snjallsímaforriti í símann og er þá unnt að skoða hver réttindin eru, m.a. á íslensku.