FLOGIÐ Í ÞÁGU MS TIL UM 27 LANDA

Hópur sjálfboðaliða í New York með þátttöku Íslendingsins Margrétar Kjartansdóttur hafa um talsvert skeið unnið að undirbúningi flugferðar tveggja hreyfla Cessna-flugvélar frá New York til alls um 27 Evrópulanda, m.a. Íslands. Tilgangurinn er að vekja athygli á MS-sjúkdómnum og safna um leið áheitum til styrktar fólki með MS. Ferðin gengur undir nafninu “Fly For MS” og er skipulögð af samtökum sjálfboðaliða. Margrét ásamt fleiri sjálfboðaliðum hafa séð um að skipuleggja ferðina auk þess sem hún sér um skipulagningu Íslandshluta ferðarinnar.

Fyrirkomulag Cessna-áheitaflugsins er í grófum dráttum fólgið í því að fljúga frá New York til Evrópu. Farið verður frá New York og fyrsti formlegi viðkomustaðurinn verður á Ísafirði. Þá liggur leiðin til Reykjavíkur áður en haldið verður áfram til 26 annarra Evrópulanda. Flogið verður í eins konar hring á milli Evrópulanda, aftur til Íslands og tilbaka til New York. Áætlunin gerir ráð fyrir að leggja af stað þann 30. ágúst og fljúga á milli Evrópulandanna á 60 dögum.

“Allt skipulag ferðarinnar er á vegum okkar Fly For MS-sjálfboðaliðanna og góðgerðarsamtaka hér vestra svo MS félögin sjálf eins og MS félagið á Íslandi þurfa í rauninni ekkert að gera varðandi ferðina sjálfa,” segir Margrét Kjartansdóttur.

Nú þegar höfum við fengið atbeina og stuðning frá MS félögum víða um heim, segir Margrét, þar á meðal MS félögum í Póllandi, Þýzkalandi, Ítalíu, Sviss, Noregi, Írlandi, Eistlandi, Tékklandi, Ísrael, Íslandi o.fl. löndum.

Allir styrkir verða staðbundnir þannig að heiti Íslendingar á Evrópuflugið og leggja sitt af mörkum með peningagjöf mun ágóðinn allur renna til Íslendinga með MS, og ef Rúmenar styrkja átakið mun ágóðinn renna til fólks í Rúmeníu með MS, o.s.frv.

Fyrirhugað er að bjóða 5-10 félagsmönnum MS-félagsins á Íslandi í útsýnisflug og kveðst Margrét hafa sérstaklega í huga flug frá Reykjavík og Ísafirði. “En við getum flogið nánast hvert sem er á landinu ef einhver út á landi vill fljúga,” segir Margrét og bætir við:.”Flugvélin okkar er með 6 sæti, þar á meðal sæti flugmannsinns, svo 5 manns geta flogið með okkur í hvert sinn.”

Loks má geta þess, að aðstandendur þessa snjallræðis hafa opnað sérstaka.vefsíðu http://www.flyms.org/  auk þess, sem opnuð hefur verið Facebook síða (Fly For MS).

-hh