FRÆÐSLUFUNDUR: SJÁLFSTÆTT LÍF FATLAÐRA

Núna á miðvikudaginn, þ. 23. marz, verður haldinn fræðslufundur á vegum MS-félagsins um NPA miðstöðina og hugmyndafræði hennar um notendastýrða persónulega aðstoð og sjálfstætt líf fatlaðra. Freyja Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri NPA miðstöðvarinnar, verður gestur fundarins, sem verður milli kl. 18-19:30 í MS-húsinu. MS-félagar, aðstandendur og aðrir eru hvattir til að mæta. Húsið opnar hálftíma fyrir auglýsta dagskrá, kl. 17:30.

Notendastýrð persónuleg aðstoð er þjónusta við fatlað fólk, sem er skipulögð af notandanum sjálfum segir á vef NPA miðstöðvarinnar, www.npa.is, og miðar að því að hann eigi kost á að taka fullan þátt í þjóðfélaginu á jafnréttisgrundvelli. Notendastýrð persónuleg aðstoð byggir á “að fatlað fólk hafi fulla stjórn á allri aðstoð sem það telur sig þurfa, m.a. með því að ákveða hver, hvar, hvernig og hvenær aðstoðin er veitt. Jafnframt byggir aðstoðin á því að fatlað fólk njóti jafnréttis og taki þátt í samfélaginu.”

NPA miðstöðin er samvinnufélag sem er rekið án ágóða (“non-profit”) og er í eigu fatlaðs fólks sem annað hvort stefnir að eða hefur notendastýrða persónulega aðstoð (NPA), eins og segir á heimasíðu félagsins. Þar segir: “Tilgangur félagsins er að styðja fatlað fólk við að útvega og skipuleggja persónulega aðstoð. Starfsemin skal byggja á hugmyndafræði um Sjálfstætt líf (Independent Living) og uppfylla skilyrði til aðildar að Evrópusamtökum um sjálfstætt líf (ENIL, European Network on Independent Living).

Freyja Haraldsdóttir var varaformaður NPA en tók við starfi framkvæmdastjóra þ. 1. desember s.l. Hún skrifar stutta en kjarnyrta pistla á vef Pressunnar um NPA og tengd mál. MS-vefurinn vill vekja athygli á síðasta pistli Freyju, “Að vera sjálfum sér ráðandi” og öðrum ákaflega athyglisverðum frá 29. nóvember, sem nefnist “Hetjur og fórnarlömb”. SMELLIÐ HÉR.

Jafnframt er fólki bent á rösklega 3ja mínútna norskt kynningarmyndband á YouTube (með íslenzkum texta) um notendastýrða persónulega aðstoð. SMELLIÐ HÉR

Komið á fræðslufundinn um athyglisverða hugmyndafræði NPA á miðvikudaginn í MS-húsinu kl. 18 – 19:30. Húsið opnar hálftíma fyrr. Snarl á boðstólum.

halldorjr@centrum.is