Fræðslufundur um mataræði og næringu: HLJÓÐUPPTAKA OG GLÆRUKYNNING

Í síðustu viku hélt Guðlaug Gísladóttir, næringarfræðingur á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, fróðlegt erindi í MS-húsinu um áhrif mataræðis og þarmaflóru á MS-sjúkdóminn. Guðlaug veitti leyfi sitt fyrir því að fyrirlesturinn yrði hljóðritaður og eins sendi hún félaginu glærukynninguna sem hún notaði.

Guðlaug hefur reynslu af því að ráðleggja fólki með taugasjúkdóma um mataræði og fór hún í fyrirlestri sínum m.a. í gegnum hinn íslenska fæðuhring og gaf okkur ráðleggingar um mataræði og næringarefni. Fólk var mjög áhugasamt og spurði margra spurninga.

Guðlaug ráðleggur okkur m.a. að borða reglulega, taka fjölvítamín, LGG, lýsi eða annan D-vítamíngjafa og kalk, sérstaklega þeim sem þurfa á sterameðferð að halda. Einnig að taka inn Omega-fitusýrur og drekka trönuberjasafa (eða trönuberjatöflur) til að fyrirbyggja þvagfærasýkingu. Hún ráðleggur fólki einnig að fara í beinþéttnimælingu og láta athuga D-vítamínmagnið í líkamanum til að finna réttu skammtastærðir fyrir hvern og einn (gert með blóðprufu).

Guðlaug sýndi bækling frá Lýðheilsustöð, Ráðleggingar um mataræði og næringarefni sem hún mælir með að við kynnum okkur og förum eftir.

Best er að hlusta á fyrirlesturinn og fletta glærukynningunni samtímis. 

 

Undir lokin kynnti Heiða Björg Hilmisdóttir bók sína Af bestu lyst 4 en Heiða er næringarrekstrarfræðingur og yfirmaður eldhúss Landspítala Háskólasjúkrahúss ásamt því að vera varaformaður MS-félagsins. Heiða samdi uppskriftirnar í samvinnu við Hjartavernd, Krabbameinsfélagið og Embætti landlæknis. Af bestu lyst 4 hefur að geyma fjölmargar uppskriftir að hollum og ljúffengum réttum og er megináhersla lögð á spennandi mat sem er í senn góður á bragðið og góður fyrir heilsuna, budduna og umhverfið.

Í bókinni eru nýstárlegar uppskriftir í bland við hollar útgáfur af hefðbundnum réttum en allar eiga þær það sameiginlegt að vera einfaldar og notadrjúgar, auk þess sem farið er eftir nýjustu ráðleggingum um mataræði.

 

Heiða sýndi fundargestum einnig danska matreiðslubók sem danska MS-félagið er með til sölu og nefnist MS, kost og livsstil.

Bókin er skrifuð af ungum MS-manni og konu hans en hann greindist með MS 19 ára gamall. Í bókinni er að finna 80 uppskriftir að heilsusamlegum mat. Þeir sem hafa áhuga á að skerpa á dönskukunnáttunni og kaupa bókina geta sent tölvupóst á bergthora@msfelag.is. Bókin kostar 199 danskar krónur eða um 4.500 kr. hingað komin. Bókin er 148 síður með vaxáferð þannig að hægt er að þurrka af blaðsiðunum ef slettist á þær.

 

Á fundinum var boðið upp á veitingar þar sem Brauðhúsið í Grímsbæ við Bústaðaveg, sem eingöngu bakar úr lífrænt ræktuðu hráefni, bauð fundargestum upp á sannkölluð heilsubrauð og Mjólkursamsalan (MS) lagði til smjörið. Við þökkum kærlega fyrir okkur J

 

 

Hljóðupptaka af fundinum er hér (mp3)

Glærukynningu Guðlaugar má finna hér

Bæklingur Lýðheilsustöðvar, Ráðleggingar um mataræði og næringarefni, sjá hér

Bókin Af bestu lyst 4, sjá hér

Bókin MS, kost og livsstil, sjá hér

 

 

 

Bergþóra Bergsdóttir