FRÆÐSLUFUNDUR UM MEÐFERÐ MS-EINKENNA

Í kvöld, miðvikudaginn 20. október, stendur MS-félagið fyrir mjög áhugaverðum fræðslufundi. Þrír sérfræðingar, taugalæknir, geðlæknir og sjúkraþjálfari fjalla um MS-sjúkdóminn með hliðsjón af sérgreinum sínum og svara spurningum, sem viðstöddum liggja á hjarta. Kleift verður að fylgjast með fundinum í beinni útsendingu á heimasíðu félagsins, www.msfelag.is. Fræðslufundurinn hefst kl. 20 og stendur í u.þ.b. eina og hálfa klukkustund eða til kl. 21:30.

Sérfræðingarnir sem heimsækja okkur á fræðslufundinn eru María Hrafnsdóttir, taugalæknir, sem mun fjalla um meðferð á helztu MS-einkennum, svo sem spösmum, blöðrutruflunum, verkjum, þreytu og skyntruflunum.

Pétur Hauksson, geðlæknir, ræðir um meðferð við ýmsum andlegum einkennum og fylgikvillum MS.

Loks kynnir Sif Gylfadóttir, sjúkraþjálfari og sviðstjóri tauga- og hæfingarsviðs á Reykjalundi, líkamlega þjálfun þeirra, sem eru með MS. Í máli sínu hyggst Sif greina frá niðurstöðum rannsókna og námskeiðum, sem haldin hafa verið á vegum MS-félagsins og Reykjalundar.

Eins og áður sagði verður hægt að fylgjast með fundinum í beinni útsendingu á heimasíðu MS-félagsins, www.msfelag.is Þá verður jafnframt hægt að senda inn spurningar til fyrirlesaranna með tölvupósti á msfelag@msfelag.is eða í síma 568 8620.

Þar sem MS-sjúklingar hafa að líkindum einna minnst samband við geðlækna (í samanburði við taugalækna og þjálfara) gefst kjörið tækifæri til að bera upp ýmsar spurningar um málefni eða vandamál, sem Pétur Hauksson, geðlæknir, gæti svarað.

Áður en fólk fer á fræðslufundinn á miðvikudagskvöld væri óvitlaust að skrá hjá sér til minnis spurningar, sem kunna að brenna á fólki.

Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Heitt á könnunni. 

                                                             halldorjr@centrum.is