FRÆÐSLUMYNDIR UM MS

Fræðsla um MS-sjúkdóminn og framþróun í meðferð skiptir MS-félagið miklu máli. Í því skyni hefur MS-félagið um langt árabil gefið út ýmsa fræðslubæklinga, haldið fræðslufundi og komið fram í fjölmiðlum auk þess að gefa út tímaritið MeginStoð tvisvar á ári. Einnig hefur félagið staðið að framleiðslu tveggja 30 mínútna fræðslumynda um sjúkdóminn, árin 1994 og 2003.

Sjá má slóðir á myndirnar hér og hér.

Á þessu ári eru 45 ár liðin frá stofnun félagsins og af því tilefni hefur félagið hug á gerð þriðju fræðslumyndarinnar þegar fjármagn hefur safnast. 

Á hverju ári greinast 15-20 einstaklingar með MS, flestir yngri en 35 ára. Greining er mikið áfall, sérstaklega þar sem sjúkdómurinn er enn ólæknandi og fólk er í blóma lífs síns. Fyrr á árum var fátt til ráða en nú hafa komið fram öflug lyf sem geta haldið framþróun sjúkdómsins að einhverju leyti í skefjum og fleiri lyf eru væntanleg.

Algeng einkenni MS eru dofi, augnbotnabólga eða sjónskerðing, jafnvægisleysi, skerðing á samhæfðum hreyfingum, máttarminnkun, jafnvel lömun, og/eða mikil þreyta, brengluð skynjun í húð og líkamlegir verkir. Einkenni geta komið í köstum með bata á milli en líka getur verið um stöðuga versnun að ræða. MS er kallaður „sjúkdómurinn með hin þúsund andlit“ þar sem segja má að einkenni sjúkdómsins séu jafn misjöfn og tilfellin eru mörg en MS-sjúklingur getur haft eitt eða fleiri MS-einkenni í mismiklum mæli.

Með framþróun í læknavísindum og betri tækjum er unnt að greina fólk fyrr en áður var. Rannsóknir hafa sýnt að því fyrr sem einstaklingur greinist og kemst á lyf þeim mun meiri líkur eru á að sjúkdómseinkenni verði mildari eða framgangi sjúkdómsins seinki. Það er því nauðsynlegt að einstaklingur fái greiningu sem allra fyrst eftir að einkenna verður vart og er þannig mikilvægt að almenningur og heilbrigðisstarfsmenn þekki vel til byrjunareinkenna sjúkdómsins. Fræðsla út í samfélagið er því mjög mikilvæg.

BB