FUNDUR HEILAHEILLA MEÐ HEILBRIGÐISRÁÐHERRA

Samtökin Heilaheill stóðu fyrir fundinum og var boðið til hans fulltrúum ýmissa sjúklingasamtaka er tengjast Samtaug, svo sem frá MS-félaginu, Parkinsonsamtökunum, MND-félaginu og Gigtarfélaginu. Sigurbjörg Ármannsdóttir og Bergþóra Bergsdóttir sátu fundinn fyrir hönd MS-félagsins. Hægt er að horfa á fundinn á vef Heilaheilla. Smellið hér til að horfa.

Þórir Steingrímsson, formaður Heilaheilla, bauð fundargesti velkomna í inngangsræðu þar sem hann fór yfir stöðu heilbrigðismála, út frá sjónarmiðum sjúklinga og sjúklingasamtaka.

Heilbrigðisráðherra tók því næst til máls. Ráðuneyti hans er gert að skera niður um 6.700 milljónir króna á árinu, sem er stór biti að kyngja fyrir annars fjársvelt kerfi. Því er hætta á að niðurskurðarhnífurinn komi einhver staðar við um allt heilbrigðiskerfið. Heilbrigðisráðherra taldi því mikilvægt að heyra sjónarmið sjúklingasamtaka. Einnig taldi hann mikilvægt að standa vörð um velferðarþjónustuna þannig að hún sé eins góð og traust og frekast geti orðið við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Ráðherra fékk margvíslegar fyrirspurnir frá fundargestum, svo sem um endurhæfingardeild Grensás og notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlaða einstaklinga. Þá var hann spurður um Reykjalund og minntur á mikilvægi starfsins sem þar fer fram. Að öllu jöfnu hefur einstaklingur aðeins von um eina nokkurra vikna dvöl til endurhæfingar þar á lífsleiðinni. Það er einfaldlega of lítið fyrir suma. Sigurbjörg Ármannsdóttir spurði, í tilefni aðstöðuleysis taugadeildar LSH til aukningar á fjölda Tysabri-þega, hvort kannaður hefði verið sá möguleiki að nýta St. Jósefsspítala og spítalann á Akureyri til að taka við Tysabri-þegum sem komnir eru áleiðis í meðferð.

Ráðherra svaraði spurningu MS-félagsins á þá leið að verið væri að skoða málið í ráðuneytinu og að haft yrði samband við félagið síðar og óskað eftir fundi. Góður og upplýsandi fundur hefði verið haldinn fyrir stuttu og hefði hann fullan hug á að vinna málið eins vel og kostur er. Ráðherra voru afhentar upplýsingar um verð Tysabri og eldri MS-lyfja og upplýsingar um allar skráðar aukaverkanir þessara lyfja. Honum fannst upplýsingarnar áhugaverðar og að þær yrðu skoðaðar vel.

Heilbrigðisráðherra sagði það annars mjög mikilvægt hvað varðaði allar þrengingar, allt aðhald og allan sparnað, að það væri framkvæmt þannig að sjálft kerfið yrði ekki eyðilagt til frambúðar. Þetta skipti grundvallarmáli. Mikilvægt væri að horfa á heildardæmið þar sem niðurskurður á einum stað gæti þýtt útgjöld á öðrum. Þegar verið væri að draga saman seglin, eða skera niður, vildi oft brenna við að horft væri til stofnunarinnar, sem í hlut á, í mjög þröngum skilningi en ekki horft á hagsmuni einstaklinganna sem þjónustunnar eiga að njóta og þjóðhagslegra áhrifa. Ráðherra tekur því undir það sjónarmið að heildarhugsun sé nauðsynleg og að meta þurfi málin í víðara samhengi en oft er gert.

Þó dregur ráðherra ekki úr því að verið er að skerða heilbrigðisþjónustuna. Það sé hinsvegar reynt að færa hana í farveg sem stjórnendur sjúkrahúsa telji að nýti fjármunina betur en ella – í markvissari farveg – þannig að fleiri njóti. Það sé þó því miður staðreynd að alls staðar sé verið að draga úr framlögum.

Skýrslugerð: Bergþóra Bergsdóttir

Mynd birt með góðfúslegu leyfi Heilaheilla.