FYRIRHUGAÐ ER AÐ INNLEIÐA MS-LYFIÐ GILENYA

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) sendu frá sér fréttatilkynningu 15. júní sl. þar sem fram kemur að stofnunin hafi móttekið bréf Landspítala Háskólasjúkrahús (LSH) dagsett 14. júní 2012 með umsókn um innleiðingu lyfsins Gilenya og að stofnunin fyrirhugi að innleiða lyfið. Sjá fréttatilkynningu SÍ hér.

Með umsókn LSH fyrirhugar spítalinn að Gilenya-meðferð verði veitt 40 sjúklingum sem haldnir eru MS-sjúkdómnum í stað lyfsins Tysabri. Ástæðan er að þeir hafa mótefni gegn JC-veiru í blóði og eru í aukinni hættu á að fá PML-heilabólgu með áframhaldandi notkun á Tysabri.

Skv. fréttatilkynningu SÍ er áætlaður afgreiðslutími umsóknarinnar hjá stofnuninni þrír mánuðir.

*****

MS-félagið hefur frá ársbyrjun verið í samskiptum við heilbrigðisyfirvöld til þess að tryggja aðgang MS-sjúklinga í áhættuhópi að MS-lyfinu Gilenya í stað Tysabri. Vonir stóðu til að það yrði án vandkvæða og að fyrstu sjúklingar hæfu meðferð fyrir vorið. Þegar þær vonir brugðust og ljóst að málið var siglt í strand sendi félagið formlegt bréf 1. júní sl. til velferðarráðuneytis, Sjúkratrygginga Íslands, Landspítala, velferðanefndar og fjárlaganefndar Alþingis og samrit til fjölmiðla þar sem krafist var heimildar til meðferðar með Gilenya í síðasta lagi 15. júní sl. Sjá bréfið hér.

MS-félagið fagnar því að réttur sjúklinga til bestu mögulegu meðferðar hafi verið virtur og að SÍ fyrirhugi nú að innleiða Gilenya, eins og segir í fréttatilkynningu þeirra. Það eru þó vonbrigði að lesa út úr fréttatilkynningunni að stofnunin ætli sér 3 mánuði í umsóknarferlið. Mánuðir eru síðan málið kom fyrst upp innan kerfisins og að þörf væri á skjótum viðbrögðum fyrir sjúklinga í sérstökum áhættuhópi.

MS-félagið vonar því að sjúklingar þurfi ekki að bíða lengur en hálfan mánuð til viðbótar eftir lyfinu, nú þegar margir mánuðir eru frá því að fyrstu MS-sjúklingar voru látnir hætta á Tysabri til að undirbúa þá undir Gileyna-meðferð.

MS-félagið skorar því á Sjúkratryggingar Íslands að flýta ferli umsóknarinnar sem mögulegt er því mikilvægt er að þessir sjúklingar fái Gilenya sem allra fyrst svo að komast megi hjá frekari fötlun þeirra.

MS-félagið þakkar öllum þeim sem með einum eða öðrum hætti lögðu sitt af mörkum til að vekja athygli heilbrigðisyfirvalda og almennings á þessu mikilvæga réttlætismáli en einnig þeim sem tóku ákvarðanir sem urðu til þess að málið er nú komið í þennan farveg. Gleðin verður þó mest þegar fyrsti sjúklingur hefur hafið lyfjameðferð sem vonandi verður innan skamms.

BB

Tengill á umfjöllun í kvöldfréttum RÚV 17. júní 2012