Góð aðstaða fyrir hreyfihamlaða í Básum (Þórsmörk)

Ferðafélagið Útivist hefur unnið að því að koma upp aðstöðu fyrir hreyfihamlaða í útivistarparadísinni, Básum á Goðalandi. Stórir og miklir pallar eru á milli skála, fláar víða, salerni með stoð og handföngum og rúmstæði á neðri hæð.

Á Útivist þakkir skildar fyrir að huga að aðgengismálum í Básum og gefa þar með hreyfihömluðu fólki tækifæri til að upplifa með fjölskyldu og vinum einstaka náttúrufegurð í fjallasal jökla og móbergshnúka.

 

Ævintýraferð fyrir alla

Er því ekki upplagt að fjölskyldan eða vinahópurinn taki sig saman og skipuleggi ævintýraferð í Bása? Engum ætti að leiðast.

Ef göngugarpar eru í hópnum, eru fjölmargar stórkostlegar, mislangar og miserfiðar stikaðar gönguleiðir í nágrenninu sem hægt er að fara um. Hinir, sem ekki nenna eða geta gengið, geta haldið sig við skálanna. Því ef það eru ekki gestir og gangandi til að fylgjast með, þá vappa einstaklega gæfir fuglar um borð og palla. Nú annars er bara að njóta fjallasýnarinnar, kyrrðar náttúrunnar, lækjarniðsins og fuglasöngsins sem heyrist úr öllum áttum. Svo er líka hægt að halda sig innandyra og horfa út á alla fegurðina.

 

 

 

 

 

 

 

 

Veðrið er alltaf gott

Veðrið í Básum er alltaf gott, segja þeir sem best þekkja. Það getur verið leiðindaveður rétt utan við Bása en beint fyrir ofan Básasvæðið horfa menn upp í bláan himinninn.  Það er fjallahringnum sem umlykur Bása að þakka að það myndast oft þessi opni skýjabolli fyrir ofan svæðið. – Hins vegar – ef svo ólíklega vill til að hvorki sést til sólar eða í bláan himinn, þá er bara að klæða sig eftir veðri 🙂

 

 

 

 

 

 

 

Aðstaðan 

Skálarnir eru tveir, þar af er sá stærri með góðu aðgengi.  Á neðri hæðinni eru kojur og einn breiður svefnbekkur. Til að komast á salernið innan úr húsi þarf að fara um ramp en að utanverðu er hægt að fara á salernið á jafnsléttu. Eldhúsið er með góðu aðgengi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Leiðarlýsing

Þegar ekið er í Bása er beygt út af þjóðvegi 1 rétt austan Markarfljóts inn á veg 249 sem breytist við Stóru-Mörk í F249 Þórsmerkurveg. Þeim vegarslóða er fylgt inn að Básum.  

Á þessari leið er yfir nokkrar óbrúaðar ár að fara og því aðeins fært rútum, jeppum og stærri bílum. Sérstaklega síðsumars eða ef mikið hefur rignt geta árnar orðið varasamar og er þá rétt að afla sér upplýsinga hjá t.d. skálavörðum (s. 893 2910) áður en haldið er af stað.

Aldrei þarf að fara yfir Krossána ef farið er í Bása.

Nákvæma leiðarlýsingu með miklum fróðleik um það sem fyrir augu ber er að finna í grein Rannveigar Ólafsdóttur hér.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar fást hjá undirritaðri með því að skrifa tölvupóst á bergthora@msfelag.is, hjá skálavörðum í Básum í síma 893 2910 eða á skrifstofu Útivistar í síma 562 1000.

Við pöntun á gistingu er best að taka fram að einstaklingur noti hjólastól svo hægt sé að taka frá gott rúmstæði.

Sjá einnig vefsíðu Bása hér og vefsíðu Útivistar hér. Upplýsingar um rútuferðir eru hér (velja brottfararstað – áfangastaðinn Þórsmörk – Básar -og dagsetningu) 

 

 

Myndir: Rúnar J. Hjartar, Guðrún Hreinsdóttir, óþekktir af vefsíðu Útivistar, ja.is og Bergþóra Bergsdóttir

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi

 

Ferðasaga Ingveldar Jónsdóttur

„Dætur mínar hafa undanfarin ár farið í árlegar ferðir með skemmtilegum gönguhópi þar sem meðlimir eru heilar fjölskyldur á ýmsum aldri. Stór hluti þessa fólks eru ættingjar okkar og vinir. Ég er í hjólastól og hef aldrei getað farið með af því að skálar eru yfirleitt óaðgengilegir.

Sumarið 2016 gerði hópurinn út frá skála Útivistar í Básum. Þá gat ég farið með, enda  aðgengi fyrir fólk í hjólastólum í Básum. Ég sat á pallinum og sólaði mig og las góðar bækur á meðan gönguhópurinn fór um svæðið. Síðan gat ég verið með hópnum eftir að þau sneru aftur. Þetta var frábært, enda nógu slæmt að geta ekki tekið þátt í gönguferðum og öðru slíku, þótt maður missi ekki af félagslífinu líka!“

 

Frekari fróðleikur

Upplýsingasíða um ferðalög hér.