Góðar gjafir til MS-félagsins og Setursins

Hlýhugur samfélagsins er starfsemi MS-félagsins og Setursins ómetanlegur. Án hans væri ekki mögulegt að halda úti þeirri þjónustu sem félagið og Setrið bjóða upp á. Opinberir styrkir eru lágir, félagsgjaldi haldið í lágmarki og Setrið er eingöngu rekið á daggjöldum.

Það er því einstaklega ánægjulegt þegar haft er samband við félagið og með miklu þakklæti sem félagið og Setrið taka á móti góðum gjöfum.

Á dögunum kom Magnús Bjarnason færandi hendi þegar hann gaf MS-félaginu 1 milljón króna í minningu sonar síns, Magnúsar Magnússonar, sem dvaldi um skeið í Setrinu. Í samráði við gefanda var keyptur langþráður sturtustóll og hann gefinn Setrinu. Auk þess fjármagnar gjöfin breytingar sem gera þarf á húsnæði félagsins til að bæta aðgengi út á sólpall sem mikið er notaður af félögunum í Setrinu á góðum og sólríkum dögum.

Oddfellow-stúkan Þorkell máni, nr. 7, I.O.O.F. veitti félaginu nú fyrir jólin 300.000 kr. styrk, Oddfellow-stúkan Þorgeir, nr. 11, I.O.O.F. 150.000 kr. styrk og fyrirtækið Vélar og Skip ehf. 75.000 kr. styrk sem koma mun að góðum notum við að fjármagna þær breytingar sem nú standa yfir á húsnæði félagsins við að útbúa viðtalsherbergi svo unnt sé að taka á móti nýgreindum einstaklingum og félagsmönnum í ró og næði í notalegu umhverfi.

Nokkur systkini Hafsteins Sigurðssonar gáfu félaginu á dögunum 200.000 kr. styrk í minningu bróður síns, sem þau óskuðu eftir að nýttist til ransókna á MS og Bergþóra Bergsdóttir gaf skol- og þurrkbúnað á salerni.

 Kærar þakkir fyrir góðar gjafir !!

BB