GÓÐI HIRÐIRINN VEITIR MS-FÉLAGINU FJÁRSTYRK

Sl. föstudag veitti Góði hirðirinn MS-félaginu styrk að fjárhæð 600.000 kr. til útgáfu fræðslubæklinga sem nú eru í vinnslu. MS-félagið þakkar Góða hirðinum kærlega fyrir styrkinn sem kemur að góðum notum. Nýir bæklingar um hugræn og tilfinningaleg einkenni MS-sjúkdómsins eru í vinnslu hjá félaginu og verða gefnir út í vetur. 

Hugræn og tilfinningaleg einkenni í MS-sjúkdómnum eru MS-einstaklingum mjög erfið því þau eru oft á tiðum ekki sjáanleg og öðrum því lítt skiljanleg. Einstaklingarnir verða því oft fyrir barðinu á fordómum.

Fordómar byggja oft á þekkingarleysi og því þykir félaginu nauðsynlegt að ráðast í gerð fræðslubæklinga sem eru upplýsandi og gefa góð ráð til að takast á við vandann. Bæklingarnir munu ekki einungis nýtast MS-einstaklingum heldur einnig fjölskyldum þeirra, vinum, skólafélögum/vinnufélögum, kennurum/leiðbeinendum og heilbrigðisstarfsfólki.

 

Þrátt fyrir að margir sæki sér upplýsingar um sjúkdóminn á netinu þá er það ekki það sama og að fá bækling í hendur.

 

Ingdís Líndal, skrifstofustjóri MS-félagsins tók á móti styrknum fyrir hönd félagsins. Sjá frétt Góða hirðisins hér

 

Mynd af styrkþegum ásamt starfsfólki Góða hirðisins

 

 

BB