Góður stefnumótunarfundur MS-félagsins að baki

Stefnumótunarfundur MS-félagsins var haldinn 25. október síðastliðinn. Fjörugar umræður og mikill metnaður einkenndi fundinn þar sem góður hópur félagsmanna ræddi og mótaði sér skoðun á starfsemi félagsins í nútíð og framtíð.

MS-félagið stendur nú á miklum tímamótum en á næsta ári fagnar félagið 50 ára starfsemi. Því þótti ekki úr vegi að kalla að borðinu félagsmenn til að taka þátt í að móta nýjar stefnur og markmið sem félagið getur beitt sér fyrir á komandi árum.

stBoðað hafði verið til opins vinnufundar með stjórn og starfsmönnum undir leiðsögn Þóreyjar Vilhjálmsdóttur, ráðgjafa og sérfræðings í stefnumótun félaga og fyrirtækja. Góð mæting var á fundinn og endurspegluðu fundarmenn breiðan hóp félagsmanna.

Fundurinn hófst með stuttri yfirferð formanns, Bjargar Ástu Þórðardóttur, yfir starfsemi félagsins. Fundarmenn voru síðan leiddir í gegnum verkefnavinnu þar sem farið var yfir og tekin afstaða til starfsemi og áherslu félagsins. Skemmtilegar og góðar umræður sköpuðust  og er ljóst að stjórn félagsins hefur úr heilmiklu efni að vinna til að móta strauma og stefnur félagsins til framtíðar.

Nánar verður sagt frá niðurstöðum þeirrar vinnu eftir því sem þær liggja fyrir.

Félagið þakkar öllum sem tóku þátt kærlega fyrir þátttökuna.

 

BB