GREIN UM LYFJAMÁL OG STÖÐU MS-FÓLKS Í MEGINSTOÐ

Grein Sóleyjar er að finna á blaðsíðum 26-32 og má nálgast blaðið í heild sinni hér.

 

Í grein Sóleyjar kemur m.a. fram að í MS-sjúkdómnum ráðist ónæmiskerfið gegn taugafrumum í heila og mænu. Bólgufrumur ráðast á mýlisslíður, sem umlykur taugasíma þar sem taugaboð fara um, og valda skemmdum á því og þar með truflunum á taugaboðum. Einnig er MS talinn vera bólgusjúkdómur þar sem skýringuna á fjölbreyttum einkennum MS er að finna í því hvar bólgurnar eru staðsettar í heila og mænu.

Rannsóknir benda til þess að orsök MS sé háð erfðum og umhverfisþáttum. Líkur á því að einstaklingur fái MS eru taldar mestar ef hann ber í sér ákveðin gen sem talin eru tengjast MS, hafi einhvern tímann á lífsleiðinni fengið EBV-sýkingu (Ebstein Barr veira sem veldur einkyrningasótt), hafi reykt eða reyki og hafi liðið D-vítamín skort í æsku. Einnig er talið að mataræði sé áhrifaþáttur. Sóley fer í grein sinni vel yfir hvern þessara þátta.

MS er enn ólæknandi sjúkdómur en ýmis lyf eru í notkun sem draga úr framgangi sjúkdómsins og fleiri eru í prófunum og væntanleg. Sprautulyfin, sem margir þekkja og hafa verið í notkun í hartnær 30 ár, eru notuð við mildari einkennum sjúkdómsins en frá 2008 hafa Tysabri og Gilenya komið til sögunnar, notað til meðferðar á erfiðari tilbrigðum sjúkdómsins.

Tysabri, sem er besta lyfið á markaði í dag, er gefið með innrennsli í æð á sjúkahúsi. Lyfið fækkar köstum um 70% auk þess að hægja á fötlun. Gilenya er hins vegar fyrsta og enn sem komið er eina lyfið í töfluformi sem þykir mikil bylting. Virkni þess liggur á milli eldri sprautulyfjanna og Tysabri.

Þrátt fyrir að enn séu ekki til lyf eða viðurkenndar aðgerðir sem lækna MS er nauðsynlegt að greina sjúkdóminn sem fyrst til að hægt sé að grípa til þeirra lyfja sem í boði eru og/eða meðferða sem best þykja henta hverju tilfelli fyrir sig. Mikilvægt er að koma í veg fyrir, fækka eða milda köst en það eru köstin sem skilja eftir sig ör/bólguskellur í heila eða mænu sem hafa áhrif á fötlun.

Í grein sinni fer Sóley yfir nýju lyfin sem nú eru í notkun og þau lyf sem eru væntanleg eða eru í prófunum. Það lyf sem líklegast er hvað næst því að komast á markað í Evrópu og Bandaríkjunum er töflulyfið BG12 (fumarat) en Sóley gerir því skóna að lyfið verði þó ekki tekið í notkun á Íslandi á næstunni. Virkni þess er svipað og Gilenya.

Það sem er vonandi næst í tíma fyrir okkur MS-inga er göngupillan Fampyra. Pillan fæst eingöngu í gegnum taugalækni og eins og staðan er í dag þarf notandinn að greiða fyrir lyfið að fullu. Pillan bætir gönguhraða MS-fólks um 25% að meðaltali en það hafa þó því miður ekki allir gagn af henni. Því er mælt með að einstaklingur prófi að taka pilluna í nokkrar vikur áður en endanleg ávörðun verði tekin um notkun hennar. Pillan gagnast ekki MS-fólki sem þarf að notast við hjólastól. Verið er fjalla um greiðsluþátttöku ríkisins hjá Sjúkratryggingum Íslands þessar vikurnar og verður niðurstaðan vonandi jákvæð fyrir okkur MS-inga þar sem lyfið er mjög dýrt og ekki á færi allra. MS-félagið fylgist mjög vel með málinu þar sem félagið leggur áherslu á að pillan verði valkostur fyrir MS-fólk sem allra fyrst.

 

 

Bergþóra Bergsdóttir