HLAUPIÐ MARAÞON Í ÞÁGU MS!

Langflestir hlaupa í þágu góðgerðafélaga

Samkvæmt fréttum um Reykjavíkurmaraþon Glitnis, sem lesa má á vef Reykjavíkurmaraþonsins og Glitnis stefnir í metþátttöku í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis um næstu helgi, ef fram fer sem horfir. Um 20% fleiri skráðir en á sama tíma í fyrra. Þetta er kjörið tækifæri til að heita á hlaupara í Glitnismaraþoninu til styrktar MS félaginu.

Í frétt um hlaupið segir á vef Glitnis:

„Ef skráningin þróast með svipuðum hætti þessa síðustu daga og hún gerði í fyrra þá stefnir vissulega í metþátttöku í hlaupinu, en það er hins vegar ómögulegt að segja hvort svo verður. Veðrið getur sett strik í reikninginn og eins getur verið að fólk sýni meiri fyrirhyggju í ár og skrái sig fyrr og lækki þannig skráningargjöldin,” Segir Frímann A. Ferdinandsson framkvæmastjóri Reykjavíkurmaraþons Glitnis.

Eins og í fyrra geta þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis í ár valið að hlaupa í þágu tiltekinna góðgerðafélaga. Nærri lætur að á síðasta ári hafi 9 af hverjum 10 íslenskum hlaupurum hlaupið fyrir góðgerðafélög og safnað áheitum frá fjölskyldum og vinum sem vildu hvetja hlauparana til dáða og styrkja um leið gott málefni. Þær skráningar sem þegar liggja fyrir benda til að þessi þróun haldi áfram og að langflestir hlauparanna kjósi að hlaupa í þágu góðgerðafélaga. Frá því að opnað var fyrir möguleikann á að heita á hlaupara hafa áheitin reynst mörgum góðgerðarfélögum umtalsverður búhnykkur. Þannig fengu fjögur félög yfir tvær milljónir króna hvert í fyrra og fimm félög til viðbótar fengu á bilinu 1,1 til 1,6 milljónir króna hvert félag. Þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni geta valið úr hátt í 100 góðgerðarfélögum af ýmsu tagi og safnað áheitum fyrir þau.”

Auðvelt að heita á hlaupara

Auðvelt er að heita á hlaupara í gegnum heimasíðu Reykjavíkurmaraþonsins og það eina sem þarf er greiðslukort og aðgangur að tölvu. Einnig er hægt að nálgast síðu maraþonsins í gegnum heimasíðu Glitnis. Á heimasíðu Reykjavíkurmaraþonsins er hægt að fletta upp hverjir hafa skráð sig í hlaupið og kemur þá fram hvaða góðgerðafélag viðkomandi hyggst hlaupa fyrir. Einnig er hægt að fletta upp nöfnum þeirra góðgerðafélaga sem skráð eru og fylgjast með því hverjir ætla að hlaupa fyrir hvert félag.

Hvernig skrái ég áheit? Sjá vef Reykjavíkurmaraþonsins HÉR

Eins og undanfarin ár heitir Glitnir á starfsmenn sína og viðskiptavini sem taka þátt í hlaupinu og greiðir nú 1.000 krónur fyrir hvern kílómetra sem starfsmaður hleypur og 300 krónur á hvern kílómetra sem viðskiptavinur hleypur. Lárus Welding forstjóri Glitnis hefur jafnframt skorað á stjórnendur annarra fyrirtækja að taka þátt í leiknum og hvetja starfsmenn sína til dáða með því að heita á þá í hlaupinu og styrkja um leið gott málefni.

Alls tóku 11457 hlauparar þátt í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis  í fyrra en þar af hlupu um 7000 í götuhlaupi maraþonsins og liðlega 4400 börn tóku þátt í Latabæjarhlaupinu á lóð Háskóla Íslands. Síðast liðinn föstudag höfðu alls 3374 skráð sig í hlaupið þegar 8 dagar voru til stefnu en í fyrra þegar 9 dagar voru til hlaups höfðu 2783 skráð sig.  Á föstudag höfðu 578 hlauparar skráð sig í heilt maraþon sem er 142 fleira en á sama tíma í fyrra og 849 höfðu skráð sig í hálft maraþon sem er hátt í 30% aukning frá sama tíma í fyrra, þegar 654 höfðu skráð sig.

Langmest fjölgun hefur orðið á skráningum í Latabæjarhlaup Glitnis en nærri lætur að 20 sinnum fleiri börn hafi skráð sig í hlaupið í ár miðað við sama tíma í fyrra. Á föstudag höfðu 483 börn skráð sig í Latabæjarhlaup Glitnis en um svipað leyti í fyrra höfðu 26 börn skráð sig til leiks.

Nánari upplýsingar:

Már Másson, forstöðumaður kynningamála Glitnis, sími 844 4990.
Frímanna Ari Ferdinandsson framkvæmdastjóri Reykjavíkurmaraþons Glitnis,sími: 864 9474

Upplýsingar um Reykjavíkurmaraþon Glitnis:

Vefur maraþonsins:
www.marathon.is/

Einnig á vef Glitnis
www.glitnir.is/