HVATNINGARVERÐLAUNIN

Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands vegna ársins 2008 verða veitt 3. desember næstkomandi, á alþjóðadegi fatlaðra. Þá efna ÖBÍ og aðildarfélög bandalagsins til hátíðahalda, skemmtana og ýmiss konar uppákoma í tilefni dagsins. MS félagið er eitt aðildarfélaga Öryrkjabandalagsins.

Sérstök undirbúningsnefnd Hvatningarverðlaunanna hefur verið skipuð og hefur þegar komið saman. Í bréfi til aðildarfélaganna hefur nefndin formlega óskað eftir tillögum að tilnefningum til verðlaunanna frá aðildarfélögunum.

 

 

Hver er verðugur?

Í bréfi undirbúningsnefndarinnar segir:

“Nú er komið að því að virkja fólkið í aðildarfélögunum og fá inn tillögur um tilnefningar fyrir Hvatningarverðlaun ÖBÍ 2008. Veitt verða þrenn verðlaun líkt og í fyrra: til fyrirtækis, stofnunar og einstaklings, sem þykja hafa skarað fram úr og endurspeglað nútímalegar áherslur um jafnrétti, sjálfstætt líf og þátttöku fatlaðra í samfélaginu. Verðugir fulltrúar sem hafa með jákvæðum hætti stuðlað að einu samfélagi fyrir alla. Tilnefna má söm u aðila og tilnefndir voru í fyrra ef vitað er að þeir séu vel að verðlaununum komnir.”

MS félagar taki þátt

MS félagið tekur undir með nefndinni og skorar á MS félaga til að senda inn tillögur um verðuga viðtakendur Hvatningarverðlaunanna. Óskað er eftir að tilnefningar séu sendar til bara@obi.is fyrir 8. september n.k.

Undirbúningsnefndin hefur jafnframt óskað eftir hugmyndum um listamenn, sem lífgað gætu upp á afhendingu verðlaunanna:  “Einstaklega ánægjulegt væri að fá ábendingar um listafólk sem gæti verið með atriði við verðlaunaafhendinguna sjálfa í formi tónlistar eða leikinna atriða. Þá er sérstaklega litið til þessa að um fatlaðan einstakling/-inga sé að ræða. Ef þið lumið á hugmynd eða munið eftir einhverjum sæm kæmi til greina, endilega sendið punkta þar um til Evu Þórdísar Ebenezersdóttur  evathordis@hotmail.com eða Báru Snæfeld bara@obi.is  Hugmyndir óskast sem allra fyrst því fleiri því betra.”

Formaður undirbúningsnefndar Hvatningarverðlauna ÖBÍ er Eva Þórdís Ebenezersdóttir, en starfsmaður nefndarinnar er Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi ÖBÍ. -h