ÍSLENSKUR TAUGALÍFEÐLISFRÆÐINGUR Í CAMBRIDGE

Ragnhildur Þóra Káradóttir, taugalífeðlisfræðingur, hefur starfað við rannsóknir í Bretlandi undanfarin 13 ár. Rannsóknir hennar, sem hún hefur unnið að á rannsóknarstofu í Cambridge, snúa aðallega að MS-sjúkdómnum en hún hefur unnið að nýrri nálgun sem getur haft mikil áhrif á meðferð við MS. Hún var í símaviðtali í Síðdegisútvarpi RÚV 5. febrúar sl.

Rannsóknir hennar og samstarfsmanna hafa vakið mikla athygli og er nú unnið að því að koma grein um rannsóknirnar í helstu læknavísindatímarit. Sérfræðingar yfirfara nú rannsóknaniðurstöðurnar til að sannreyna þær. Nauðsynlegt er að fá rannsóknaniðurstöður birtar í virtu tímariti og fá þannig opinbera viðurkenningu, því fyrr er í raun ekki búið að gera neitt, eins og Ragnhildur Þóra orðar það sjálf.

MS-vefurinn mun birta aðra frétt um rannsóknir Ragnhildar Þóru þegar grein hennar hefur verið birt.

Ragnhildur Þóra hefur lært skráningu rafboða í heila. Taugafrumur tala saman með rafboðum og það er hægt að hlusta á „samtal“ þeirra með því að tengjast við elektróðu á eina taugafrumu í heilasneið og skrá hvað frumurnar segja. Ragnhildur Þóra hefur skoðað heila sem hefur orðið fyrir áfalli, eins og gerist í MS, og skráð hvað gerist þegar heilinn reynir að laga sjálfan sig.

Í MS ræðst ofnæmiskerfið á heilann, þ.e. ákveðin svæði heilans verða fyrir árás, frumur skemmast og heilinn virkar ekki á þessu tiltekna svæði heilabúsins.

Ragnhildur Þóra og samstarfsmenn hennar hafa undanfarið rannsakað hvernig hægt er að laga þessar skemmdir svo að það náist fullur bati en ekki bara að það hægi á eða minnki að skemmdir myndast og hafa þau þá litið til stofnfrumna líkamans.

Ferlið frá uppgötvun og að lyfi eða lækningu tekur gríðarlega langan tíma, mörg ár, jafnvel áratug eða áratugi. Eftir að grein Ragnhildar Þóru og teymis hennar fær birtingu í vísindatímariti þá munu rannsóknir þeirra halda áfram og auðvitað krossum við fingur og vonum það besta J

Sjá frétt RÚV hér

 

 

BB