JAFNVÆGISNÁMSKEIÐ Í BOÐI SVALANNA

Á fyrsta degi septembermánaðar í haust hefst fyrri önn svokallaðs “jafnvægisnámskeiðs” í umsjón sjúkraþjálfara á tauga- og hæfingardeild Reykjalundar. Námskeiðið stendur fram til jóla. Strax í janúar á næsta ári verður þráðurinn tekinn upp aftur og þá hefst síðari önnin. Tímar verða tvisvar í viku. Efnt er til námskeiðsins samkvæmt samkomulagi við Svölurnar, sem gera MS-félaginu kleift að halda námskeiðið með myndarlegum fjárstyrk.

Námskeiðið nefnist fullu nafni “Sértæk líkamleg þjálfun í hópi. Jafnvægi, færni og úthald. Fræðsla og slökun.” Þetta námskeiðshald er framhald á sams konar námskeiði, sem hófst upp úr s.l. áramótum.

Það eru Svölurnar, sem gera MS-félaginu kleift að bjóða upp á námskeiðið með samningi sem nemur samtals kr. 2.500.000. (Sjá frétt um Tímamótasamning /timamotasamningur-vid-svolurnar). Í honum felst, að Svölurnar taka við fjármögnun á verkefninu “jafnvægishópþjálfun, fræðsla og slökun”, sem boðið var upp á í fyrsta sinn á s.l. vorönn í boði Pokasjóðs. Fyrir tilstuðlan Svalanna mun MS-félagið geta boðið félögum sínum upp á sambærileg námskeið veturinn 2009-2010, í samstarfi við Reykjalund endurhæfingarmiðstöð SÍBS.

Svölurnar er félag núverandi og fyrrverandi flugfreyja, sem hefur það að markmiði að styðja fjárhagslega við bakið á þeim sem minna mega sín. Allur ágóði af árlegri sölu jólakorta Svalanna rennur óskiptur til líknarmála.

Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður MS-félagsins segir að aðkoma Svalanna með þessum rausnarlega styrk hafi gert MS-félaginu kleift að efna til og skipuleggja jafnvægisnámskeiðið á komandi vetri. Hún segir, að reynslan af námskeiðinu í vor sýni, að full þörf sé fyrir sérhæfð námskeið af þessu tagi fyrir MS-fólk.

Uppbygging námskeiðsins verður með svofelldum hætti: Námskeiðið fer fram á haustönn 2009 og vorönn 2010 og verður haldið í húsnæði MS félagsins við Sléttuveg 5 í Reykjavík. Tímarnir verða 2x í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum. Þátttakendur geta valið að mæta einu sinni í viku og þá á fimmtudögum, en kjósi þeir að mæta tvisvar er boðið upp á aukatíma fyrir þá og verða þeir tímar á á þriðjudögum. Boðið verður upp á tvo hópa, annar (hópur A) verður á fimmtudögum kl. 16-17:00 og hinn (hópur B) verður á fimmtudögum kl. 17-18:00. Á þriðjudögum verður boðið upp á sameiginlegan tíma fyrir báða hópa (A og B) kl. 16-17:00. Hóparnir verða eins að því leyti að miðað verður við að ögra getu hvers einstaklings og því ekki skipt í hópa eftir líkamlegri getu. Hámarksfjöldi þátttakenda í hvorum hópi er 10. Miðað er við 32 skipti fyrir hvorn hóp fram að áramótum og 32 skipti eftir áramót. Fyrsti tíminn verður þriðjudaginn 1. september.

Námskeiðið miðast fyrst og fremst við þjálfun á jafnvægi, stöðu og hreyfistjórn, krafti og úthaldi. Þjálfunin er færnimiðuð og í formi stöðvaþjálfunar í hópi og verður lögð áhersla á að ögra getu hvers einstaklings. Fræðsla verður um jafnvægi hvíldar og hreyfingar og hreyfivirkni í daglegu lífi með umræðum og afhendi. Teygjur og stutt slökun verður í lok hvers tíma. Áherslan verður ólík eftir dögum.

Á þriðjudögum verður samkvæmt lýsingu leiðbeinendanna: “5 mínútna upphitun, 20 mínútna stöðvaþjálfun með áherslu á úthald, í formi gönguæfinga á gólfi, göngu á göngumyllu, með mótstöðu á þrekhjóli og róður í trissum. 20 mínútna stöðvaþjálfun með áherslu á færnimiðaða kraftþjálfun með eigin líkamsþyngd, í tækjum og með handlóðum. Þjálfun sem ögrar getu hvers og eins. 15 mín teygjur og slökun”.

Á fimmtudögum verður áherzla lögð á: “10 mín upphitun, stöðvaþjálfun með 35 mín sértækum æfingum á jafnvægi, stöðu og hreyfistjórn og fallviðbragði. Færnimiðaðar æfingar sem ögra getu hvers og eins. 15 mín teygjur og slökun.

Leiðbeinendur verða Sif Gylfadóttir, MSc; Andri Sigurgeirsson, BSc (MSc nemi við HÍ) og Anna Sólveig Smáradóttir, BSc.

Eftirfarandi er boðin þátttaka: Einstaklingum sem sækja ekki MS dagvist, eru með greiningu um MS sjúkdóm og geta gengið með eða án gönguhjálpartækja.

Áhugasamir um námskeiðin, stundatöflu og námskeiðsgjald geta haft samband við skrifstofu félagsins í síma 568 8620.

hh