Jákvæðni og bjartsýni hefur áhrif á heilsu

„Ég held að mikilvægast fyrir mig og aðra sem eru með MS sé að gefast ekki upp. Ef maður er sífellt að hugsa um hvað allt sé ómögulegt þá held ég að frumurnar í líkamanum verði máttlausari gagnvart sjúkdóminum. Ef maður er jákvæður og bjartsýnn verða frumurnar sterkari í baráttunni og ráða betur við ástandið þannig að maður verður ekki eins veikur.“

 

Þessi innihaldsríku gullkorn mælti hinn 23 ára Sigurður Kristinsson í viðtali við Pál Kristinn Pálsson í 2. tbl. MeginStoðar 2017 undir yfirskriftinni „Með jákvæðnina að leiðarljósi“.

 

Jákvæðni og bjartsýni hefur áhrif á heilsu

Og Sigurður hefur svo sannarlega rétt fyrir sér. Í grein Guðnýjar Bogadóttir, hjúkrunarstjóra heilsugæslunnar í Vestmannaeyjum kemur fram að fjölmargar rannsóknir hafi sýnt fram á að jákvæðni og bjartsýni hafi jákvæð áhrif á heilsu, hvort sem er andlega, líkamlega og/eða félagslega. Jákvæðir einstaklingar eigi auðveldara með að takast á við streitu í daglegu lífi á uppbyggilegan hátt, lifa heilbrigðara lífi og hafa jákvæðar væntingar til lífsins.

Nefnir Guðný að hugræn atferlismeðferð (HAM) og það að tala við sjálfan sig með það að markmiði að auka jákvæðni og bjartsýni, dragi úr neikvæðri hugsun.

 

Horfðu til nútíðar og framtíðar

Þá skrifar læknirinn Peter Abaci grein, sem birtist á vefmiðlinum WebMD, um hvernig jákvæð hugsun getur linað verki og ekki síst, auðveldað þér lífið. Dr. Abaci segir nauðsynlegt að þú veltir þér ekki of mikið upp úr fortíðinni heldur einbeitir þér að jákvæðu hugarfari í daglegu lífi.

Vertu í nútímanum og horfðu til framtíðar – ekki festast í fortíðinni. Sættu þig við takmarkanir þínar og að þú getur átt slæmar stundir inn á milli þeirra góðu.

Dr. Abaci vil nefnilega meina að viðhorf þitt til lífsins hafi mikil áhrif á hvernig þú svarar læknismeðferð, á viðhorfum annarra til þín og hvort þú sért hamingjusamur/-söm og ánægð/-ur með lífið og tilveruna í lok dags.

Hann segir mikilvægt að beina sjónum og orku að því að láta sér líða betur og læra aðferðir til að takast á við sjúkdóm sinn. Einnig er mikilvægt að trúa því að hægt sé að vinna sig í gegnum erfiðleika sem kunna að koma upp. Þá segir hann lítinn ávinning felast í því að rifja sífellt upp hvernig lífið var fyrir veikindin.

 

Einmitt! Mörgum hættir nefnilega til að kvelja sig í tíma og ótíma með því að hugsa um hvað lífið væri svo miklu betra ef MS hefði ekki komið til – en það gagnast ekki. Hafðu frekar í huga að það að vera með MS þýðir ekki að þú þurfir að gefa drauma þína upp á bátinn heldur þarftu bara að endurhugsa hvernig á að lifa þá 🙂

 

 

Heimild hér, hér og hér

Mynd: tellyouall.com

 

Bergþóra Bergsdóttir 

 

Fróðleiksmolar:

  • Viðtal við Sigurð Kristinsson, Með jákvæðnina að leiðarljósi, hér
  • HAM – handbók í hugrænni atferlismeðferð, hér
  • Geðræktarkassinn, hér