JOHN E.G. BENEDIKZ, TAUGALÆKNIR, LÁTINN

John E.G. Benedikz, mikilhæfur taugalæknir og sérfræðingur í MS-sjúkdómnum, lést 24. desember sl., 82. ára að aldri. John átti þátt í stofnun MS-heimilisins, nú MS-Setursins, árið 1985 og starfaði þar í mörg ár.  Hann var gerður að heiðursfélaga MS-félagsins árið 2003. Minningarorð formanns MS-félags Íslands fara hér á eftir.

 

John E.G. Benedikz 

Fæddur 30. apríl 1934, látinn 24. desember 2016

John E.G. Benedikz nam  taugalækningar í Englandi. Hann sérhæfði sig í MS-sjúkdómnum, stundaði rannsóknir og sótti ráðstefnur hér heima og erlendis.  Hann starfaði á Landspítalanum og víðar og rak eigin stofu. Ásamt Sverri heitnum Bergmann var John um áratugaskeið sá læknir sem langflestir MS-sjúklingar reiddu sig á.

John átti þátt í stofnun MS-heimilisins, nú MS-Setursins, árið 1985 og starfaði þar í mörg ár. Hann var gerður að heiðursfélaga MS-félagsins árið 2003 fyrir störf sín í þágu fólks með MS.

Ég hitti John fyrst 1982 vegna sjóntaugabólgu. Þá fór ég til hans á skoðunarherbergi á Landspítala. Ekki mátti ég greiða fyrir þá skoðun og var sá háttur hafður á eftir það. Hann hlustaði á mína sögu, horfði á göngulagið og þá var komin sjúkdómsgreining. Ég fór síðan reglulega til hans.

John hugði ætíð að velferð skjólstæðinga sinna sem minnast hans með hlýhug. Hann var þeim meira en bara taugalæknir, hann var einnig sannur vinur þeirra. Margir hringdu heim til hans á hvaða tíma dags sem var og var öllum tekið vel.

John var eftirminnilegur á margan hátt og alveg ógleymanlegur persónuleiki. Vindill í munni, pappírsbunkar og skýrslur í bunkum á borði og stólum. En fyrst og fremst situr eftir minning um umhyggjusaman lækni sem var með hugann við læknisfræðina allt til dauðadags. 

Ég sendi fjölskyldu hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Berglind Guðmundsdóttir, formaður MS-félags Íslands