KAUPIÐ FLATKÖKUR OG STYRKIÐ MS-FÉLAGIÐ

Frá og með fimmtudeginum 21. maí til 27. maí geta landsmenn styrkt MS-félagið duglega með því að kaupa flatkökur frá Ömmubakstri og Gæðabakstri. Fyrirtækin tvö ætla að sýna þann rausnarskap að láta 10 krónur af hverjum seldum flatkökupakka renna til þjónustustarfsemi MS-félagsins. MS-félagar, aðstandendur og velvildarmenn félagsins eru hvattir til þess að birgja sig upp af flatkökum vikuna 21. til og með 27. maí. Þá væri ráð að láta vini og ættingja vita af rausnarskap fyrirtækjanna og hvetja sem flesta til að kaupa flatkökur helzt daglega til og með alþjóðadegi MS þ. 27. maí n.k. Merki Ömmubaksturs                                           
            Merki Gæðabaksturs

 

 

 

 

Í tilefni af Heimsdegi MS 27. maí er lögð sérstök áherzla á að auka vitund almennings um sjúkdóminn “multiple sclerosis”, ólæknandi taugasjúkdóm, sem er vísindamönnum enn ráðgáta þótt þekking þeirra hafi stóraukizt á síðustu árum. Þá er hugsunin einnig sú að efla samstöðu og samstarf MS félaga og –samtaka um allan heim og loks að standa að fjáröflun til stuðnings MS félögum og styðja við bakið á öflugu rannsóknarstarfi sem miðar að því að afla meiri þekkingar um sjúkdóminn og skapa forsendur fyrir því að kleift verði að búa til lyf sem stöðvar framgang MS-sjúkdómsins og helzt lyf sem getur sigrazt á MS sjúkdómnum.

Hér á landi er takmarkað bolmagn til slíkra rannsókna en engu að síður eru unnar rannsóknir hérlendis, sem koma að gagni og bæta í þekkingarbrunninn. Hér á MS-vefnum höfum við t.d. nýlega greint frá forystuhlutverki Sverrris Bergmanns, taugasérfræðings, í svokallaðri ID-rannsókn nokkurra ríkja í Evrópu, sem MS félagið og Evrópubandalagið styrkja – auk framlags skrifstofu MS félagsins við úrvinnslu gagna, svo eitthvað sé nefnt. Um er að ræða víðtæka faraldursfræðilega rannsókn sem jafnframt beinist að víðtækri könnun á félagslegri stöðu MS-sjúklinga, þjónustu og stöðu þeirra í samfélaginu. Þá er að finna í greinasafni MS-vefjarins greinar um MS eftir íslenzka fræðimenn.

Helsta baráttumál MS-félagsins núna í aðdraganda fyrsta Heimsdags MS, er að allir þeir MS-sjúklingar, sem gagn hafa af, fái Tysabri, lyfið sem hefur bæði bætt líðan MS-sjúklinga og stöðvað framgang sjúkdómsins. Á milli 70-80% þeirra, sem fá lyfið sýna framför.

Auk “flatkökuvikunnar” er nú þegar í gangi landssöfnun á vegum MS félagsins. Þá gefur prentsmiðjan Prentmet félaginu prentun á dreifimiðum með upplýsingum um hið vikulanga söluátak á flatkökum og fróðleik um MS-sjúkdóminn sem slíkan. Markmiðið er bæði að vekja athygli á styrktarátakinu og sjúkdómnum.

Flatkökusalan er ekki bundin við tilteknar verzlanir heldur mun MS-félagið njóta 10 krónu afraksturs af sölu á flatkökupökkum um allt land. Ákvörðun Ömmubaksturs og Gæðabaksturs um þetta myndarlega styrktarframlag ber vott um góðan hug og rausn fyrirtækjanna og vonum við og hvetjum alla til að leggja góðu málefni lið í þágu MS.

Afrakstur af sölunni verður afhentur á Heimsdegi MS miðvikudaginn 27. maí Í MS-húsinu við Sléttuveg 5, þar sem verður efnt til samkomu á milli kl. 15-18 með ýmsum skemmtiatriðum.

Hvetjið alla ykkur nákomna til að fá sér flatkökur a.m.k. vikuna 21.-27. maí 2009 – og sýna fyrirhyggju og kaupa meira en ella fyrir frystikistuna! h