KREFJUMST ÚRBÓTA STRAX

 “Við getum illa sætt okkur við þetta,”segir formaður MS félagsins og krefst úrbóta og snarpari vinnubragða vegna Tysabri-meðferðar.

Í ljósi ummæla Elíasar Ólafssonar, yfirlæknis á taugadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss í hádegisfréttum Útvarpsins í gær um nauðsyn úrbóta á aðstöðu deildarinnar vegna þjónustu við MS sjúklinga segir Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður MS félagsins, að félagið hljóti að gera þá kröfu að yfirstjórn spítalans og heilbrigðisyfirvöld grípi strax til aðgerða til úrbóta til þess að geta gefið MS sjúklingum Tysabri lyfið.

 “Það eru nákvæmlega hálfur mánuður liðinn síðan lýst var yfir því í frétt á vef MS félagsins, að LSH ætlaði að auka afgreiðsluhraðann og taka allt að fjóra sjúklinga í Tysabri meðferð á viku í stað tveggja áður, sem ég kallaði seinagang,” sagði Sigurbjörg.

 “Á þessum tveimur vikum hafa aðeins tveir MS sjúklingar verið kallaðir í meðferð, eða sem nemur einum sjúklingi á viku! Þetta gengur þvert á yfirlýsingu taugadeildarinnar og hægagangurinn er orðinn meiri. Við getum illa sætt okkur við þetta,” sagði Sigurbjörg Ármannsdóttir.

“Við hljótum að krefjast þess, að ráðstafanir verði gerðar til að gera taugadeild LSH kleift að vinna samkvæmt þeirri áætlun, sem kynnt var fyrir skemmstu um að spýtt yrði í lófana,” sagði Sigurbjörg jafnframt.

 Fyrir hálfum mánuði  höfðu 9 sjúklingar fengið Tysabri, en hefur aðeins fjölgað um tvo í 11.

Elías Ólafsson taugalæknir sagði í frétt RÚV, að álag á taugasjúkdómadeildinni hafi aukist mikið með Tysabri meðferðinni “og nauðsynlegt sé að bæta aðstöðu deildarinnar svo að hægt sé að sinna MS sjúklingunum á viðunandi hátt, án þess að það komi niður á öðrum sjúklingum.”

Aukið álag stafar jafnframt af því, að sjúklingar sem hefja meðferðina koma á 4 vikna fresti til lyfjagjafar eftir fyrstu heimsóknina.

Elías sagði jafnframt, að nú væri rætt við yfirstjórn sjúkrahússins um lausnir til að mæta þessum vanda.

Í samtali við MS vefinn sagði Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður MS félagsins, að fyrirhugað væri, að hún og Sverrir Bergmann, taugafræðingur, færu á fund umsjónarlæknis Tysabri meðferðarinnar á taugadeild LSH, vegna þessara mála.

Í lok síðastliðins árs var samþykkt aukafjárveiting að upphæð 200 milljónir króna til Tysabri meðferðar fyrir 50 MS sjúklinga samkvæmt frétt Útvarpsins. Lyfið kom á markað hér á landi í september síðastliðnum og hefur það gefið MS sjúklingum nýja von.

Lyfið getur fækkað köstum hjá sjúklingum um allt að 70-80%.

Sigurbjörg sagði að mikið væri hringt í félagið út af nýja lyfinu, aukið álag væri á sjúklinga vegna væntinga um meðferð og skapazt hefði spenna, sem gæti valdið versnandi ástandi MS sjúklinga.

MS félagið ætlar að efna til fræðslufundar um Tysabri-lyfið, meðferðina, aukaverkanir o.fl. fyrir miðjan næsta mánuð. Haukur Hjaltason, taugafræðingur og umsjónarlæknir Tysabri-meðferðarinnar á LSH verður gestur fundarins.