KUNNIR KAPPAR STYÐJA MS BARÁTTUNA

Í áranna rás hefur MS félagið á Íslandi notið stuðnings og skilnings almennings í baráttunni fyrir bættum lífsgæðum MS-sjúklinga. Á fyrsta alþjóðlega MS deginum lýsa 6 framúrskarandi íþróttamenn yfir stuðningi við starf MS félagsins, meginmarkmið alþjóðadagsins að auka vitund almennings um sjúkdóminn og efla rannsóknir um heim allan til að stöðva framgang MS sjúkdómsins. Í hópnum eru m.a. Eiður Smári Guðjohnsen, Alfreð Gíslason og Katrín Jónsdóttir.
Þá taka íþróttakempurnar undir helzta baráttumál MS félagsins, að allir MS sjúklingar sem þurfi og hafi gagn af, fái beztu hugsanlegu lyfjameðferð, eins og íslenz lög kveða á um. Aukin lífsgæði MS sjúklinga séu göfugt markmið og þjóðfélagsleg skylda.

Íþróttamennirnir hvetja íslenzk stjórnvöld til að tryggja, að MS sjúklingar verði ekki látnir mæta afgangi í íslenzku samfélagi. Það sé augljós skylda þeirra sem íþróttamanna, að hvetja til þess að MS-sjúklingum verði gert lífið bærilegt. Þeir sem séu heilbrigðir, eins og þau sjálf sem skipa neðangreindan hóp, megi ekki gleyma þeim, sem eru ekki jafn gæfusamir og þeir sjálfir, heldur hafi verið slegnir hinum ólæknandi sjúkdómi MS.

Íslenzku íþróttakempurnar, sem allar stunda íþrótt sína á erlendri grund nema ein, og lýsa yfir stuðningi við MS félagið og baráttumál þess eru þessir:

Margrét Lára Viðarsdóttir fagnar markiEiður Smári Guðjohnsen, Barcelona, Alfreð Gíslason, þjálfari handknattleiksliðs Kiel, Þýzkalandi, Hermann Hreiðarsson, Portsmouth, Englandi, Katrín Jónsdóttir, fyrirliði knattspyrnuliðsins kvenna og læknir, Guðjón Valur Sigurðsson, Rhein Neckar Löwen, Þýzkalandi, og Margrét Lára Viðarsdóttir, Linköping, Svíþjóð.

Eiður Smári og Katrín Jónsdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu og læknir sendu MS-félaginu sérstakar stuðningsyfirlýsingar.

Stuðningsyfirlýsing Eiðs Smára Guðjohnsen, knattspyrnumanns hjá Evrópumeisturum Barcelona 2009


“Það vill gjarnan gleymast, að það eru forréttindi að ganga heill til skógar. Fyrir mig sem atvinnumann í knattspyrnu frá því ég var mjög ungur maður, verður mér ótrúlega oft hugsað til þeirra, sem þjást af “krónískum” sjúkdómum, að ekki sé minnst á MS-sjúkdóminn, sem enn er ólæknandi.

Það þarf ekki sérstakan alþjóðlegan eða íslenskan MS dag til að minna mig á þennan óttalega sjúkdóm. Hugmyndin er hins vegar vel til þess fallin að vekja umheiminn og næsta mann til vitundar um þennan taugasjúkdóm, sem getur breytt lífi fórnarlambsins til hins verra það sem eftir er ævinnar.

Ég hef af eigin raun kynnst þessum sjúkdómi og séð hversu skelfilegur hann getur orðið. Það er því í fullri einlægni sem ég óska MS félaginu á Íslandi, góðs gengis á alþjóðlegum baráttudegi gegn sjúkdóminum. Og ég vona innilega, að vísindamenn eigi fljótt eftir að finna lyf sem sigrast á þessum ólæknandi sjúkdómi, “multiple sclerosis”.

Bestu kveðjur frá Barcelona á Spáni, Eiður Smári Guðjohnsen

Stuðningsyfirlýsing Katrínar Jónsdóttur:

Katrín Jónsdóttir í landsleik við NorðmennHvað veit ég um MS? Ég gæti nú eflaust talað um mörg einkenni og sagt frá fólki sem ég hef hitt með sjúkdóminn, þá bæði persónulega og í starfi. Á námsárunum fannst mér ég kunna ansi mikið um sjúkdóminn en eftir 3-4 ár sem starfandi læknir þá hef ég nú gert mér grein fyrir því að það er svo margt sem maður ekki veit. Sá sem veit mest um MS er í raun sá sem lifir með sjúkdómnum.

Hinsvegar veit ég að það getur verið mikið áfall að greinast með krónískan sjúkdóm. MS er þar engin undantekning. Og að lifa með sjúkdómnum skil ég að geti verið ákaflega erfitt þar sem sum einkenni MS geta haft mjög heftandi og lamandi áhrif á sjúklinginn. Við þetta bætist hið andlega álag og sú mikla óvissa sem skapast um hversu slæmur sjúkdómurinn á eftir að verða. Ekki bætir úr skák að MS er sjúkdómur ungs fólks. Skv. tölfræðilegum upplýsingum greinast 75% MS-sjúklinga fyrir 35 ára aldur.

Ég lít á það sem forréttindi að fá tækifæri til að taka undir baráttu MS-sjúklinga. Mín ósk er sú að allir fái bestu og viðeigandi meðferð sem völ er á hverju sinni.

Ég óska þess að MS- félaginu gangi vel í baráttu sinni. Til hamingju með fyrsta alþjóðadag MS miðvikudaginn 27. maí 2009!

Katrín Jónsdóttir, læknir og knattspyrnukona, fyrirliði íslenzka landsliðsins og íþróttamaður Reykjavíkur á liðnu ári.

Samantekt: hh