KVENNÓ Í HEIMSÓKN

Kvennaskólinn hélt sinn árlega Góðgerðadag, þriðjudaginn 28. febrúar, en þá vinnur hver bekkur góðgerðastarf í samstarfi við góðgerðafélag sem þeim hefur verið úthlutað. MS félagið og Setrið tóku á móti einum bekk og útbjuggu fyrir þau verkefni til að vinna að. Áður en nemendurnir komu í heimsókn höfðu þeir fengið fræðslu um MS-félagið og sjúkdóminn. Berglind Guðmundsdóttir og Sigurbjörg Ármannsdóttir fóru í skólann og hittu nemendur og spjölluðu við þau.

Það voru svo 13 nemendur sem mættu klukkan 10 um morguninn. Þuríður framkvæmdarstjóri Setursins sagði þeim frá starfseminni og sýndi þeim staðinn. Krakkarnir fóru svo í göngutúr með fólkinu í Setrinu og voru þau dugleg við að aðstoða. Næst fengu krakkarnir að pakka kortum hjá félaginu. Þau voru snögg að pakka góðum bunka af tækifæriskortum sem eru að fara í sölu hjá okkur. Eftir hádegismat fóru þau inn á vinnustofu og aðstoðuðu við handmaska og að setja hitapoka á fólkið. Einnig tóku þau að sér að sníða efni í hitapokana/grjónapokana. Þau voru orðin mjög flink með sníðaskærin. Þau prófuðu líka að þæfa og búa til skartgripi. Nemendur voru mjög ánægðir með daginn og sögðu að þetta væri skemmtilegasti góðgerðadagurinn sem þau hefðu tekið þátt í. MS félagið og Setrið þakkar krökkunum fyrir aðstoðina og eins var ánægjulegt að finna fyrir áhuga þeirra og jákvæðni.

BG