KYNNING Á NIÐURSTÖÐUM Á RANNSÓKN Á ÞJÁLFUN Á MINNI OG EINBEITINGU HJÁ FÓLKI MEÐ MS

Haustið 2011 fór fram rannsókn á vegum Tauga- og hæfingarsviðs Reykjalundar. Smári Pálsson taugasálfræðingur, Sigurður Viðar sálfræðingur og sálfræðnemarnir Heiða Rut Guðmundsdóttir og Kristín Guðrún Reynisdóttir kynntu niðurstöður. Tilgangur rannsóknarinnar var að meta áhrif vitrænnar þjálfunar á minni og einbeitingu fólks með MS. Slíkt hefur ekki verið gert markvisst hérlendis og er einnig lítt kannað erlendis.

Undanfarin ár hefur umræðan svo aukist um áhrif vitrænnar þjálfunar á fólk með MS. Til eru nokkrar rannsóknir sem sýna að þjálfun skilar sjúklingum með MS bættri getu á þessum sviðum auk bættra lífsgæða. Ennþá er þó fjölmörgum spurningum ósvarað eins og hversu mikil þjálfunin þurfi að vera, hvers konar þjálfun sé árangursríkust og hvaða vitrænu þætti þjálfunin virkar best á.

Undir vitræna skerðingu fellur margs konar vandi og má þar nefna skert minni, athygli og einbeitingu, skertan hugrænan hraða, vanda tengdan máli og tali og skerta getu til að leysa þrautir. Alþjóðasamtökin um MS mæla með greiningu á vitrænni skerðingu hjá fólki með MS og ef um skerðingu er að ræða mæla þau með einhverri tegund af vitrænni þjálfun. Rannsóknir benda til að með vitrænni þjálfun í tölvu sé hægt að bæta minni, athygli og einbeitingu hjá almenningi og ýmsum sjúklingahópum.

Þátttakendur stunduðu vitræna þjálfun markvissa heima í tölvu í 6 vikur. Allir voru metnir í upphafi rannsóknar og aftur að 6 vikum liðnum. Þátttakendur sýndu framför en enginn marktækur munur kom í ljós. Það vekur upp spurningar hvort rannsóknin hafi náð yfir of skamman tíma. En það er ávinningur fyrir alla að þjálfa minni og einbeitingu. Þjálfunin getur falist í því að ráða krossgátu eða sudoku. Eins er þjálfunarforritið Lumosity sem notað var í þessarri rannsókn aðgengilegt á netinu og er tiltölulega ódýrt. Fyrirlesarar voru sammála um að þetta svið þyrfti að rannsaka miklu betur. Niðurstöðurnar eru aðgengilegar hér í hljóðskrá.