LEIÐBEININGAR UM NOTKUN OG GREIÐSLUÞÁTTTÖKU GÖNGUPILLUNAR FAMPYRA NÚ TILBÚNAR

Lengi hefur verið beðið eftir ákvörðun um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga á göngupillunni Fampyra og leiðbeiningum við notkun hennar. Nú hafa leiðbeiningar verið gefnar út á vefsíðu Sjúkratrygginga og hægt verður að sækja um lyfjaskírteini fyrir notkun hennar. Gert er ráð fyrir 2ja vikna prufutíma til að kanna hvort Fampyra virki fyrir viðkomandi MS-sjúkling. Gerðar eru mælingar í upphafi og lok prufutímans til að meta árangur.

Fampyra blokkerar ósértæka kalíumleiðir bæði í mið-og útlæga taugakerfinu sem getur þar með bætt vöðvasamdrátt og þannig hjálpað göngugetunni. Lyfið er í töfluformi og skal taka eina töflu á 12 klukkustunda fresti. Mælt er með því að taflan sé ekki tekin með mat.

 

Hafa skal í huga að áður en taka lyfsins hefst þarf að fá tíma hjá taugalækni og hann síðan að óska eftir tíma í gönguprófi en biðtími getur verið allt að nokkrar vikur.

 

Gildistími lyfjaskírteinisins verður 6 vikur í byrjun þannig að rúmur tími gefst fyrir 2ja vikna meðferð og göngupróf. Ef sjúklingur uppfyllir skilyrði fyrir áframhaldandi meðferð sendir læknir nýja umsókn um lyfjaskírteini.

Skv. klínískum rannsóknum eykur Fampyra gönguhraða um 25-26% sé borið saman við samanburðarhóp og að auki hafa mælst framfarir í styrk beina. Engu skiptir hvaða tegund MS viðkomandi er með. Niðurstaða sömu rannsókna sýna að Fampyra gagnist 35-43% sjúklinga. Ekki er vitað fyrirfram hverjir geti haft gagn af pillunni og því er þessi 2ja vikna prufutími nauðsynlegur en talið er að virkni lyfsins komi mjög fljótt fram. Reynslan hefur sýnt að pillan hefur ekki eingöngu áhrif á gönguhraða heldur geti einnig bætt almenna líðan og styrk. Það þarf þó alltaf að vega, meta og mæla í hverju tilviki fyrir sig.

Frábendingar fyrir notkun (fá ekki lyfið) eru þeir sem eru flogaveikir eða hafa fengið flog, og þeir sem eru með skerta nýrnarstarfsemi. Ekki hafa komið fram alvarlegar aukaverkanir í rannsóknum eða við notkun Fampyra. Aukaverkanir eru aðallega frá taugakerfi og á meðal þeirra eru flog, svefnleysi, kvíði, jafnvægisraskanir, sundl, náladofi, skjálfti, höfuðverkur og þróttleysi. Algengasta aukaverkunin er þvagfærasýking sem kom fram hjá 12% sjúklinga í klínískum rannsóknum. Einnig er aukin tíðni sundls og jafnvægistruflana á fyrstu 4 til 8 vikum meðferðar sem getur leitt til aukinnar hættu á falli. Það er því mælt með að sjúklingar sem nota gönguhjálpartæki haldi áfram að nota þau eins og þörf er á.

Ýtarlegar upplýsingar um Fampyra er að finna á vef Lyfjastofnunar hér.

 

Merki Sjúkratrygginga Íslands

 

Á vefsíðu Sjúkratrygginga kemur fram að áður en sótt sé um greiðsluþátttöku fyrir Fampyra skuli framkvæma gönguprófin “Timed 25 Foot Walk” (T25FW) og “12-item Multiple Sclerosis Walking Scale” (MSWS-12).

Greiðsluþátttaka er samþykkt til reynslu í tvær vikur til fullorðinna einstaklinga sem eru:

·         með kastaform (relapse remitting MS), frumkomna versnun (primary progressive) eða síðkomna versnun (secondary progressive) af MS sjúkdómi.

·         með stöðug einkenni og án nýlegra lyfjabreytinga

·         ekki í MS kasti

·         með skerta göngugetu

·         með EDSS gildi á bilinu 4-7

Í lok 2ja vikna meðferðar með Fampyra skal framkvæma gönguprófin aftur til að meta hugsanlegan ávinning.

Greiðsluþátttaka er samþykkt til 12 mánaða til einstaklinga með:

·         20% bætingu í gönguhraða í T25FW prófinu og

·         Að minnsta kosti 4 stig í MSWS-12 prófinu

Tekið verður tillit til þess ef einstaklingur fær umtalsverðan ávinning á aðra þætti en göngufærni sem bæta lífsgæði hans en þó verður annað hvort skilyrðið hér að ofan að vera uppfyllt.

Greiðsluþátttaka er samþykkt að nýju ef einstaklingurinn hefur viðhaldið jákvæðri svörun úr T25FW og MSWS-12 prófunum.

Ef gönguhæfni reynist hafa minnkað skal endurmeta ávinninginn af Fampyra. Slíkt endurmat skal fela í sér að hætta notkun Fampyra í um 2 vikur og framkvæma gönguprófið að nýju.

Eingöngu taugalæknar geta sótt um lyfjaskírteini fyrir Fampyra. Umsóknarferlið fer þannig fram að læknir sendir umsókn um lyfjaskírteini til Sjúkratrygginga Íslands (SÍ). SÍ sendir síðan lækni tilkynningu með tölvupósti þegar SÍ hefur afgreitt umsóknina. Ef SÍ samþykkir greiðsluþátttöku, þá er það til 2ja vikna meðferðar í upphafi.

Eins og áður segir er gildistíminn á lyfjaskírteininu 6 vikur í byrjun, þannig að rúmur tími gefst fyrir 2ja vikna meðferð og göngupróf. Ef sjúklingur uppfyllir skilyrði fyrir áframhaldandi meðferð sendir læknir nýja umsókn um lyfjaskírteini.

 

 

Bergþóra Bergsdóttir