Lifað með MS: Flott myndband með Láru Björk Bender

 Skjáskot af Láru Björk Bender á YouTube

 

MS-félag Íslands fékk kynningarmyndband að gjöf frá Öryrkjabandalagi Íslands í tilefni af 55 ára afmæli bandalagsins.

 

„Maður þarf bara að vera jákvæður og líta á björtu hliðarnar“

Í myndbandinu segir ung kona, Lára Björk Bender, varamaður í stjórn MS-félagsins, frá lífi sínu með sjúkdóminn. Hvernig henni leið fyrst eftir greiningu og hvernig hún tókst á við daglegt líf í kjölfarið.

Lára fór fljótlega að stunda polefitness, sem reynir ekkert smá á styrk einstaklingsins, og segist aldrei hafa verið sterkari og hraustari heldur en hún er í dag, þrátt fyrir að vera með MS-sjúkdóminn á bakinu. Hún er nú þjálfari hjá Eríal Pole en er einnig í fullu starfi á þjónustusviði Orkuveitu Reykjavíkur.

Lára segir að hreyfing og mataræði skipti öllu máli. Það lækni ekki sjúkdóminn en hjálpi til og haldi okkur gangandi.

 

Frábært myndband á YouTube

Myndbandið sýnir frábæra og flotta unga konu sem tekst á við erfiða greiningu með jákvæðu hugarfari og styrk.

Myndbandið var frumsýnt á alþjóðadegi MS, 31. maí 2017 og má nálgast hér.

 

 

Bergþóra Bergsdóttir