MabThera er árangursríkt við meðferð á MS í köstum

Þetta er niðurstaða sænskrar rannsóknar sem birt var í tímaritinu Annals of Neurology á vormánuðum 2016. MabThera hefur verið notað “off label”  á Íslandi frá 2012 en mikil líkindi eru með MabThera og MS-lyfinu Ocrevus, sem hlaut markaðsleyfi í Evrópu nú á dögunum, og væntanlegt er á vormánuðum. 

Greinin í Annals of Neurology ber heitið “Rituximab versus Fingolimod after Natalizumab in Multiple Sclerosis Patients.”.

 

Rannsóknin

Rannsóknin var gerð við háskólasjúkrahúsin; Karolinska, Sahlgrenska og Umeå í Svíþjóð. Þátttakendur voru 256 einstaklingar með MS í köstum sem höfðu þurft að hætta á Tysabri-meðferð og voru í kjölfarið settir á Gilenya (55% þátttakenda) eða MabThera (45% þátttakenda).

Niðurstöður leiddu í ljós að yfir 18 mánuða tímabil, eftir að Tysabri-meðferð var hætt, fengu aðeins 1,8% þeirra þátttakenda sem fóru á MabThera MS-köst en 17,6% þeirra sem fóru á Gilenya.

Aukaverkanir voru einnig færri hjá þeim sem fengu MabThera (5,3%) á móti þeim sem tóku Gilenya (21,1%). Sömuleiðis þurftu færri að hætta á MabThera-meðferð á tímabilinu (1,8%) miðað við þá þátttakendur sem tóku Gilenya (28,2%).

Virkar MS-skellur komu fram hjá 1,4% þeirra sem fengu MabThera samanborið við 24,2% þeirra sem fengu Gilenya.

 

MabThera við MS

Rannsókninni var ætlað að bera saman virkni Gilenya og MabThera fyrir þá einstaklinga sem þurfa að hætta á Tysabri-meðferð, vegna áhættu á PML-heilabólgu, og þurfa á áframhaldandi meðferð að halda.

MS-lyfið Gilenya hefur verið notað hér á landi frá 2011.

MabThera hefur verið notað sem „off-label-meðferð“ á Íslandi frá 2012 fyrir þá einstaklinga sem hvorki geta verið á Tysabri- né Gilenya-meðferð, vegna áhættu eða aukaverkana, eða þegar MS-lyf virka ekki sem skyldi. „Off-label“ þýðir að lyfið er ekki markaðssett til meðferðar á þeim sjúkdómi sem það er ávísað á, en læknir telur er að meðferðarvirkni lyfsins sé þess eðlis að kostir af notkun þess vegi upp mögulega áhættu fyrir sjúklinginn.

Nokkrar minni rannsóknir liggja fyrir um virkni MabThera sem meðferð við MS en engin stór fasa-III rannsókn hefur verið framkvæmd. Lyfið hefur því ekki markaðsleyfi sem MS-lyf.

MabThera var markaðssett 1997 og er með markaðsleyfi til meðhöndlunar á eitilfrumukrabbameini, alvarlega virkri iktsýki, hnúðaæðabólgu og smásærri fjölæðabólgu. Það er notað “off-label” við mörgum öðrum sjúkdómum en MS og meðal annars við nýrnaskipti.

MabThera hefur verið notað “off-label” við MS í Svíþjóð frá 2008, á sama hátt og á Íslandi. Reynsla Svía er mjög góð en um fjórðungur sænskra MS-sjúklinga, sem er á lyfjameðferð, er á lyfinu. Lyfið þolist vel, meðferðarárangur er góður, aukaverkanir ásættanlegar og þekktar þar sem um gamalreynt lyf er að ræða, auk þess sem lyfið er mun ódýrara en MS-lyf.

 

 

Heimild hérhérhérog hér

Mynd hér

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi

 

 

Frekari fróðleikur