MEGINSTOÐ, 2. tbl. 2013, ER KOMIÐ ÚT – væntanlegt með póstinum

Á 45. afmælisdegi félagsins 20. september, kom út seinna tölublað MeginStoðar á árinu 2013, sjá hér. Að þessu sinni er athyglinni sérstaklega beint að ungu fólki með MS. Í blaðinu eru birt viðtöl við Ölmu Ósk Árnadóttur og Hörpu Sóleyju Kristjánsdóttur sem báðar eru 24 ára og staðráðnar í að láta sjúkdóminn ekki buga sig heldur horfa sterkar fram á veginn til framtíðar. Í viðtalinu er einnig kynning á MSFF, sem er MS fræðslu- og félagsmiðstöð, sem hópur MS-fólks stofnaði til í sumar. Svo fáum við fréttir af landsbyggðinni en reglulega hittast hópar MS-fólks víða um land.

Þá er einnig viðtal við Björn Loga Þórarinsson, sérfræðing í almennum lyflækningum og taugasjúkdómum, sem nýlega hefur hafið störf á taugadeild Landspítalans í Fossvogi.

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður MS-félagsins, segir frá hvað efst er á baugi á Norðurlöndunum og í Evrópu í málefnum MS-fólks og birtar eru niðurstöður viðamikillar samnorrænnar rannsóknar Lasse Skovgårdum val MS-fólks á óhefðbundnum lækningum.

Þuríður Ragna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri MS Setursins stiklar á stóru yfir 27 ára rekstur Setursins. Síðast en ekki síst er sagt frá öllum námskeiðum félagsins sem í boði eru og leyndarhulunni er svipt af jólakorti ársins en myndina í ár málaði Edda Heiðrún Backman eins og undanfarin 2 ár.

 

 

Bergþóra Bergsdóttir