MS-blaðið, 1. tbl. 2018, er komið út

Nú ætti öllum félagsmönnum MS-félagsins að hafa borist tímarit félagsins, MS-blaðið, sem áður hét MeginStoð. Margir hafa eflaust tekið eftir nýju útliti blaðsins en í tilefni 50 ára afmælisárs félagsins þótti ekki úr vegi að „poppa“ blaðið aðeins upp, bæði með nýju nafni og nýrri uppsetningu.  

Sigríður Friðjónsdóttir, prentsmiður hjá Prentmet og Garðar Pétursson, grafískur hönnuður, eiga heiðurinn að nýju útliti blaðsins.

Ritnefnd blaðsins skipa: Páll Kristinn Pálsson, ritstjóri, Berglind Guðmundsdóttir, Bergþóra Bergsdóttir, Björg Ásta Þórðardóttir, Dagbjört Anna Gunnarsdóttir og Sigurbjörg Ármannsdóttir.

MS-blaðið má nálgast hér

 

Í blaðinu má m.a. lesa niðurstöðu stefnumótunarvinnu sem félagið stóð að í október sl. Þá var haldinn vinnufundur með breiðum hópi félagsmanna, stjórn og starfsmönnum til að fara yfir starfsemi félagsins, móta félaginu nýja framtíðarsýn og finna leiðir til að efla og bæta þjónustuna enn frekar.

Viðtal Páls ritstjóra við Björgu Ástu Þórðardóttur, sem nú hefur verið formaður í tæpt ár, skipar veglegan sess í blaðinu. Í viðtalinu segir Björg Ásta m.a. frá metnaðarfullri framtíðarsýn sinni fyrir félagið og lífi sínu fyrir og eftir MS. Björg Ásta prýðir forsíðu blaðsins.

Þá lítur Fræðslunefnd félagsins yfir farinn veg í starfsemi félagsins sl. 15 ár.

Talsmenn landsbyggðahópanna segja frá líflegu starfi hópanna eða frá þörfinni fyrir að koma á fundum og sagt er frá Árskógarhópnum sem hittist reglulega og á góða stund saman.

Sagt er frá fyrirhuguðum námskeiðum á vorönn og salnum í MS-húsinu sem nú er hægt að fá leigðan fyrir alls kyns veislur og viðburði.

Einnig er sagt frá ómetanlegu samstarfi félagsins við systurfélögin á Norðurlöndunum og frá stuttmynd sem ungu fulltrúar NMSR (Nordisk MS Råd) kynntu á fundi norræna ráðsins, sem haldinn var á Íslandi nú í vetur.

Þuríður Ragna Sigurðardóttir lítur um öxl en hún hefur nú látið af störfum sem framkvæmdastjóri MS Setursins eftir um tveggja áratuga starf. Að sjálfsögðu má einnig sjá myndir frá líflegu og fjölbreyttu starfi félaganna í Setrinu.

 

Efnisyfirlit:

 • Frá formanni
 • Félagsstarf á vorönn
 • Gjafa- og tækifæriskort
 • Jólaball MS-félagsins
 • Námskeið á vegum MS-félags Íslands
 • Minning: Margrét Guðnadóttir
 • MS Salurinn til leigu
 • Styrkir til félagsins og þakkir 
 • Styrktarsjóður fyrir unga fólkið
 • Stefnumótun MS-félags Íslands vorið 2018
 • MS-félag Íslands 50 ára
 • Gott norrænt samstarf
 • Þörfin fyrir MS-félagið tekur sífelldum breytingum
 • MS-hópar utan höfuðborgar
 • Fastur punktur í tilverunni
 • Þróun á sterkum grunni
 • Dagsins annir og yndi

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi