MS-GÁTAN: TVEIR ERFÐAVÍSAR FUNDNIR

Vísindamenn í Ástralíu og Nýja Sjálandi hafa uppgötvað staðsetningu tveggja erfðavísa, sem gætu orðið “lykillinn” að svari við spurningunni hvers vegna fólk fær “multiple sclerosis”. Nýjar rannsóknarniðurstöður um þetta voru birtar í “Nature Genetics” þ. 14. júní s.l., virtu vísindariti í erfðafræði. Þessi uppgötvun hóps 40 vísindamanna frá Ástralíu og Nýja Sjálandi hefur vakið mikla athygli og binda forystumenn rannsóknarteymisins miklar vonir við að uppgötvunin geti svarað spurningunni hverjir séu líklegir til að fá MS.

Auk þess að svara því hverjir séu líklegri til að fá “multiple sclerosis” muni þessi uppgötvun jafnframt varpa ljósi á hvers konar meðferð sé líklegust til að veita sjúkdómnum viðnám eða lækna hann.

“Orsök MS hefur um áratugabil verið ráðgáta. Þessi rannsókn leiðir okkur fyrir sjónir mikilvæga nýja þekkingu um erfðafræðilegan móttækileika, sem leitt getur til þess að fólk fær MS,” er haft eftir Trevor Kilpatrick, prófessor og forstöðumanni taugavísindadeildar Melbourne Háskóla. Hann hefur fyrir hönd Melbourne háskólans samhæft þessa alþjóðlegu rannsókn ásamt Philip de Jager og dr. Justin Rubio hjá Florey taugafræðistofnuninni.

“Þessi nýja uppgötvun á staðsetningu erfðavísa í litningum 12 og 20 bendir til mjög jákvæðrar niðurstöðu og líklegra staðsetninga, sem benda til móttækileika fyrir MS,” segir Kilpatrick í viðtali við vísindafréttaritið Science Daily.

“Þessar niðurstöður eru eins og lykill að hurð – innan við hana teljum við að kleift sé að finna ástæður þess að sumir eru móttækilegir fyrir MS,” segir ástralski prófessorinn.

Dr. Bill Carroll sem tók þátt í rannsókninni sagði við áströlsku sjónvarpsstöðina ABC, að niðurstöðurnar vísuðu veginn um hvert stefna skuli í áframhaldandi rannsóknum.

“Þessir erfðavísar sem hafa verið greindir færa okkur aftur sanninn um að D vítamín hefur áhrif á þennan erfðagalla og ónæmiskerfið í fólki með MS og þetta gefur okkur vísbendingar um það hvernig meðferð eigi að beita gagnvart sjúkdómnum,” segir dr. Carroll í viðtalinu.

Þá segir dr. Carroll að rannsóknin bæti við þekkinguna um hvernig MS hefur áhrif á heilann og mænuna og gæti þannig varðað veginn að leiðum til að veita rétta meðferð og hugsanlega að koma í veg fyrir MS.

Í Nature Genetics kemur fram, að rannsóknin stóð í 3 ár og voru rannsökuð DNA sýni 1.618 einstaklinga með MS og um 3.500 manna “kontrólhóps” karla og kvenna, sem ekki er með MS. Hér er um að ræða frumrannsókn og rétt að vara við of mikilli bjartsýni.

Um 2,5 milljónir manna í heiminum eru með MS. Sjúkdómurinn er talinn einkar skæður og illvígur sjálfsofnæmissjúkdómur, þar sem hann er ólæknandi, og skýtur einkum upp kollinum hjá fólki í blóma lífsins, aðallega hvítum konum.

Heimildir: Nature Genetics, Science Daily og ABC sjónvarpið í Ástralíu.

hh