23.05.2019
MS-lyfið Mavenclad hefur nú bæst í flóru MS-lyfja á Íslandi eftir jávæða umsögn Lyfjagreiðslunefndar. Mavenclad hefur mikla langtímaverkun. Meðferðarlotan er 4 ár en einungis eru teknar nokkrar töflur í byrjun meðferðar og síðan ekkert fyrr en meðferðin er endurtekin ári síðar. Engar töflur eru teknar á þriðja og fjórða ári.
Lyfið er ætlað til meðferðar á einstaklingum með MS í köstum með mikla sjúkdómsvirkni. Ávinningur af meðferðinni er minni hjá þeim sem ekki hafa mikla sjúkdómsvirkni.
Hve oft gefið
Lyfið hefur langtímaverkun. Í byrjun meðferðar eru teknar 1-2 töflur í 4-5 daga (fer eftir líkamsþyngd einstaklingsins) og svo aftur mánuði síðar. Meðferðin er endurtekin ári síðar (ár 2), þ.e. 1-2 töflur í 4-5 daga og sami skammtur aftur mánuði síðar. Engar töflur eru teknar á þriðja og fjórða ári.
Virkni
Tveggja ára rannsóknin CLARITY sýndi fram á að virka efni Mavenclad, cladribine, fækkaði köstum um 67% hjá einstaklingum með mikla sjúkdómsvirkni og minnkaði líkur á aukinni fötlun um 82%, mælt á EDSS-fötlunarmælikvarðanum, yfir 6 mánaða tímabil, samanborið við lyfleysu.
Niðurstaða CLARITY EXTENSION-rannsóknarinnar var að ekki var þörf fyrir meðferð með Mavenclad á seinni hluta 4ra ára meðferðarlotunnar, á ári 3 og 4.
Aukaverkanir
Helstu aukaverkanir geta verið:
- Tímabundin hvítkornafæð (fækkun eitilfrumna (hvít blóðkorn) í blóði), sem eykur hættu á sýkingum.
- Ristill (herpes zoster) er algeng aukaverkun.
- Áblástur (herpes á munni) – útbrot – hárlos – fækkun tiltekinna hvítra blóðfrumna (daufkyrninga).
Vera á varðbergi gagnvart PML-heilabólgu, sjá hér, þrátt fyrir að engin slík tilvik hafi komið upp í klínískum rannsóknum. Í klínískum rannsóknum komu hins vegar fram stök tilvik illkynja sjúkdóma (krabbameins).
Frábending
HIV-sýking, virk langvinn sýking (berklar eða lifrarbólga), veiklað ónæmiskerfi, virkur illkynja sjúkdómur, miðlungs eða alvarlega skert nýrnastarfsemi, meðganga og brjóstagjöf.
Mikilvægt að hafa í huga
- Karlar og konur þurfa að nota 100% örugga getnaðarvörn meðan á meðferð stendur með Mavenclad og í a.m.k. 6 mánuði eftir síðasta skammt. Þetta er mikilvægt þar sem Mavenclad getur valdið ungbarni alvarlegum skaða og sæði getur borist í kvenkyns maka karla og skaðað fóstrið.
- Taktu ekki Mavenclad á sama tíma og önnur lyf. Láttu að minnsta kosti 3 klukkustundir líða milli töku Mavenclad og annars lyfs til inntöku. Mavenclad inniheldur efni sem getur haft milliverkanir við önnur lyf í maganum.
- Mikilvægt er að einstaklingar á Mavenclad gangist undir hefðbundnar krabbameinsskimanir eftir meðferð.
- Nota má barkstera (stera) til styttri tíma til meðferðar á t.d. MS-köstum samhliða meðferð með Mavenclad.
- Ef þú þarft á blóðgjöf að halda skaltu láta lækninn vita að þú sért á Mavenclad-meðferð. Hugsanlega þarf að geisla blóðið til þess að koma í veg fyrir fylgikvilla.
Verkun
Mavenclad inniheldur virka efnið cladribine, sem er frumudrepandi efni sem virkar að mestu á eitilfrumur en það eru frumur í ónæmiskerfinu sem hafa með bólgumyndun að gera. Cladribine dregur úr fjölda tiltekinna tegunda T- og B-eitilfrumna (hvítra blóðkorna) sem taldar eru valda því að ónæmiskerfið ræðst á mýelín, efnið sem myndar slíður utan um taugasíma (taugaþræði) og ræður hraða og virkni taugaboða og veldur MS-einkennum. Með því að draga úr fjölda þessara eyðileggjandi ónæmisfrumna í blóði er talið að cladribine geti hægt á eða stöðvað ónæmisviðbragðið sem veldur þessari árás ónæmiskerfisins á mýelínið.
Nánari upplýsingar um Mavenclad á MS-vefnum.
Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi
Frekari fróðleikur:
- Upplýsingar um MS-lyf
- Fréttir um Mavenclad/cladribine á MS-vefnum, sjá t.d. hér, hér og hér.