MS-lyfið Ocrevus komið með markaðsleyfi í Bandaríkjunum

Ocrevus, sem er fyrsta lyfið sem gagnast við stöðugri versnun MS (e. primary progressive) og því algjör bylting, en gagnast einnig við MS í köstum (e. relapsing remitting), hefur nú hlotið markaðsleyfi í Bandaríkjunum. Það þýðir að væntanlega verður lyfið komið á evrópskan markað og aðgengilegt á Íslandi fyrir áramótin.

Evrópska lyfjastofnunin er að jafnaði um 6 mánuðum á eftir þeirri bandarísku til að samþykkja lyf til markaðssetningar í Evrópu og síðan tekur við 1 til 3ja mánaða ferli hjá þeirri íslensku.

 

Meðferð og aukaverkanir

Ocrevus verður gefið í æð, 600 mg, á 6 mánaða fresti. Fyrsta gjöfin verður þó með tveggja vikna millibili, 300 mg í hvort skipti.

Algengustu aukaverkanir þeirra sem fengu Ocrevus í rannsóknum á lyfinu voru innrennslisviðbrögð (viðbrögð við inngjöf lyfsins), sýkingar í efri öndunarvegi og herpes í munni. Einkennin voru að mestu væg til miðlungs alvarlegar.

Nánar um meðferð og aukaverkanir þegar markaðsleyfi á Íslandi liggur fyrir.

 

Rannsóknaniðurstöður

Fasa-III rannsókn (Oratorio) var gerð á 732 einstaklingum með stöðuga versnun MS. Hluti hópsins fékk Ocrevus og hluti lyfleysu til samanburðar.

Niðurstöður sýndu að meðferð með Ocrevus minnkaði hættu á skerðingu eða fötlun um 24% yfir 12 vikna tímabil og minnkaði sjúkdómsvirkni í heila (MS-skemmdir).

Rannsóknarniðurstöður má sjá hér.

 

Tvær fasa-III rannsóknir (Opera I og Opera II) voru gerðar samhliða á Ocrevus fyrir MS í köstum. Þátttakendur voru 1.656 manns og fékk hluti þeirra Ocrevus en aðrir MS-lyfið Rebif til samanburðar í 96 vikur eða í um tvö ár.

Helstu niðurstöður voru þær að á ársgrundvelli fækkaði köstum um rétt tæplega 50% og hætta á skerðingu eða fötlun yfir 12 vikna tímabil minnkaði um 40%. Þá minnkaði sjúkdómsvirkni í heila (MS-skemmdir) til muna.

Rannsóknarniðurstöður má sjá hér.

 

 

Það er frábært að loks skuli hilla undir fyrsta lyfið sem gagnast við stöðugri versnun MS og að enn bætist við lyfjaflóru gegn MS í köstum.

 

 

Heimild hér.

Mynd: Shutterstock

 

Bergþóra Bergsdóttir

 

*****

Lesa má um allar sjúkdómsgerðir MS hér.

 

Stöðug versnun MS (e. primary progressive MS/PPMS)

Sjúkdómsferlið fer hægt af stað og lýsir sér frá byrjun í vaxandi einkennum án hléa eða bata. Um þriðjungur verður þó var við stöku kast með hléum og tímabundnum minniháttar bata. Ferlið getur tekið langan tíma eða náð hámarki á einhverjum tímapunkti og haldist stöðugt eftir það. 

 Stöðug versnun MS

Einstaklingar sem greinast með þessa sjúkdómsgerð eru nokkuð eldri en þeir sem eru með MS-í köstum. Um 10% einstaklinga með MS eru með þessa gerð sjúkdómsins.

 

MS í köstum (e. relapsing remitting MS/RRMS)

Um 85% MS-sjúklinga upplifa tímabundna versnun með bata í kjölfarið, svo kallað MS í köstum, sem gerir það að algengustu sjúkdómsgerð MS. Flestir greinast með þessa gerð sjúkdómsins.

 MS í köstum

Ný einkenni koma þá fram eða viðvarandi einkenni versna. Eftir köstin verður fullur bati eða að einhver einkenni sitja eftir, sem þó eru þannig að hægt er að segja að líðan og ástand sé nokkuð stöðugt á milli kasta.

Sjúkdómsgerðin er mjög ófyrirséð. Sé sjúkdómsvirkni mikil geta komið nokkur köst á ári en það þekkist líka að mörg ár líði á milli kasta. 

Margs konar lyf eru til sem koma í veg fyrir köst, fækka þeim eða stytta tímann sem þau standa yfir, jafnvel að þau haldi sjúkdómnum alveg í skefjum.