MS-sjúkdómurinn er áskorun – fræðsla eykur skilning

Fróðleiksmoli um MS-sjúkdóminn:

 

Að meðaltali greinist ein manneskja á tveggja vikna fresti

með MS á Íslandi.

 

 

MS er einn algengasti taugasjúkdómur sem leggst á ungt fólk. Á hverju ári greinast að jafnaði um 25 manns með MS á Íslandi, flestir á aldrinum 20-40 ára. Margir hafa upplifað MS-einkenni mörgum árum fyrir greiningu án þess að hafa gert sér grein fyrir því fyrr en litið er til baka.

MS er um tvisvar til þrisvar sinnum algengari hjá konum en körlum en um orsök þess er ekki vitað.

 

Við greiningu á MS er stuðst við:

 

  • Skoðun taugalæknis.
  • Sjúkrasögu og einkenni.
  • Niðurstöður segulómunar (MR/MRI).
  • Mænuvökvarannsókn sem gefur til kynna hvort um bólgu í miðtaugakerfinu sé að ræða.
  • Sjónhrifrit sem sýnir leiðnihraða taugaboða í sjóntaugum og leiðir í ljós hvort um töf á taugaboðum sé að ræða, eins og getur gerst í kjölfar sjóntaugabólgu.
  • Útilokun annarra sjúkdóma sem líkst geta MS svo sem vissra gigtarsjúkdóma, brenglaðrar starfsemi skjaldkirtils, heilaæxla, vissra sýkinga o.fl.

 

Til að uppfylla skilyrði MS-greiningar þarf einkenni um taugaskemmd að koma frá a.m.k. tveimur stöðum í miðtaugakerfinu og að einkennin hafi komið fram á mismunandi tíma. Greining getur þó byggt á einu MS-kasti séu viss skilyrði uppfyllt á segulómun. Greining á MS getur þó aldrei byggt eingöngu á niðurstöðu segulómunar.

 

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi