MS STOPPAR MIG EKKI: Sonja, 29 ára frá Englandi

Í tilefni Alþjóðadags MS 25. maí n.k. er MS-fólk um allan heim, líka á Íslandi, hvatt til að deila reynslu sinni af því hvernig það getur lifað sjálfstæðu lífi þrátt fyrir sjúkdóminn og hvernig það hefur fundið leiðir til að yfirvinna hindranir sem sjúkdómurinn getur skapað og komið auga á möguleikana.

Við viljum því eindregið hvetja ykkur til að senda okkur fáein orð eða fleiri um hvað gefur ykkur sjálfstæði undir yfirskriftinni “MS stoppar mig ekki….”.

 

Hér er saga Sonju, 29 ára stúlku frá Englandi.

 

“Greiningin var fyrir mig bæði mjög skyndileg og algjörlega óvænt. Ég var lögð inn á spítala með hraði í október 2013 vegna gruns um heilablóðfall. Eftir spítalaleguna er vinstri hlið líkamans veikari auk þess sem ég glími við fjölda “ósýnilegra” einkenna. Þrátt fyrir það legg ég hart að mér til að auka og viðhalda líkamlegum styrk og færni.

Ég leysi stundum af sem eyrnalæknir barna, en frítíma mínum er varið í kajakróður, sjálfboðavinnu og í að öðlast nýja reynslu og læra nýja hluti.

Kajakróðurinn hefur reynst mér mjög mikilvægur; hann hefur ekki einungis hjálpað líkamlegu endurhæfingu minni, heldur hefur það einnig bætt mína andlegu vellíðan að vera úti í náttúrinni og eignast nýja vini.  Það hefur líka hjálpað mér að setja markmið og gefa lífinu mínu fókus. Án kajakróðursins efast ég um að líkami minn væri jafn sterkur og hann er í dag.

Ég tel hreyfingu vera lykilinn; ef þú hefur einhvern veikleika, ekki gefa honum færi á að versna, taktu örlög þín í eigin hendur með því að því að hreyfa þig eins mikið og unnt er – ég er ekki að segja að þú eigir að hlaupa maraþon (þó það væri eflaust gaman seinna meir!). Byrjaðu bara hægt og rólega að byggja upp styrk og þol með aðstoð góðs sjúkraþjálfara og hver veit hvaða breytingar þú gætir séð á líkama þínum.”

******

 

Sjá frétt um alþjóðadaginn og sumarhátíð MS-félagsins hér

Sjá viðburð sumarhátíðarinnar hér

 

 

Heimild hér

Þýðing: Helga Kolbeinsdóttir