NÝ RANNSÓKN UM MÁLEFNI ÖRYRKJA OG NEYSLUVIÐMIÐ

Niðurstöður rannsóknarinnar og neysluviðmið voru kynntar á málþinginu „Daglegt líf, afkoma og aðstæður öryrkja¨ sem haldið var föstudaginn 25. febrúar. Öryrkjabandalag Íslands, Velferðarráðuneytið, Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála buðu til málþingsins.

Rannsóknin var unnin í tilefni af Evrópuári gegn fátækt og félagslegri einangrun, af Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands og í samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands. Í rannsókninni var lögð áhersla á að fá fram sjónarhorn og reynslu fólks á örorkubótum. Í skýrslunni er tekið á ýmsum þáttum, m.a. ranghugmyndum að öryrkjar séu fleiri hér á landi en í nágrannlöndunum, en svo er ekki, fjöldi öryrkja hér er landi er svipaður og í löndunum í kringum okkur. Í skýrslunni eru lagðar til úrbætur í 10 liðum, og ein af þeim er að leiðrétta ranga, villandi og neikvæða umfjöllun um málefni öryrkja. Flestir verða öryrkjar á aldrinum 40-50 ára og eiga langa sögu á vinnumarkaði . Í skýrslunni er fjallað um fjölskyldur öryrkja og undirstrikað að börnin eru auðlind þjóðarinnar. Þar kemur fram að fólk hefur t.d. ekki efni á að greiða fyrir tómstundir barna eða fara með þau til tannlæknis. Fólk er hvatt til að skoða skýrsluna og þær tillögur sem settar eru fram til úrbóta. Drög að skýrslu um fátækt og félagslegar aðstæður öryrkja má nálgast hér.

Á málþinginu var einnig fjallað um „Neysluviðmið fyrir einstaklinga og fjölskyldur á Íslandi“. Til grundvallar liggja gögn frá Hagstofunni um neyslu og til viðbótar voru notuð gögn um bifreiðakostnað og kostnað vegna skólagöngu barna. Skýrslan er lögð fram til almennrar kynningar og umræðu og birt á vef ráðuneytisins ásamt reiknivél þar sem einstaklingar geta mátað sig að neysluviðmiðunum í samræmi við eigin aðstæður. Á vefnum er einnig unnt að senda ráðuneytinu athugasemdir og ábendingar varðandi viðmiðin til 7. mars næstkomandi.

BG