NÝ REIÐHÖLL OG LYFTA JÓNS LEVÍS

Ný og glæsileg reiðhöll Hestamannafélagsins Harðar í Mosfellsbæ var vígð fyrir skemmstu að viðstöddu fjölmenni. Guðjón Magnússon, formaður félagsins, hélt ræðu, þar sem hann rakti sögu hugmyndar og byggingar reiðhallarinnar. Hér er um að ræða merkt framtak hestamanna, sem mun þó nýtast öðrum, s.s. fötluðu fólki. Berglind Guðmundsdóttir, formaður MS-félagsins flutti stutt ávarp á vígsluhátíðinni.

Guðjón rifjaði upp, að þegar hugmyndinni um reiðhöll hefði verið varpað fram hefði viðkomandi nánast verið talinn galinn: Það hafi verið á stjórnarfundi í Herði árið 1995:

“Þá kom þáverandi varaformaður félagsins með þá hugmynd að byggja reiðhöll og var að eigin sögn kallaður hálfviti og vitleysingur að ætla að ríða út inni í húsi. Þrátt fyrir þessa niðurlægingu tók hann þetta upp á næsta LH þingi, svona sem hugmynd, það lá við að honum yrði hent út af þinginu. Einn þingmanna sneri sér þá að honum og sagði honum til huggunar að allar nýjar góðar hugmyndir tækju tíu ár. Og það er ekki fjarri lagi.”

Formaðurinn sagði í ræðu sinni á vígsluhátíðinni 19. nóvember s.l., að það hefði frá upphafi verið markmið félagsins og draumur “að þjálfun fatlaðra ætti hér góða aðstöðu og er allt fyrirkomulag hér miðað við að svo verði. Stórar innkeyrsludyr og ríflegt framsvæði hér framan við reiðvöllinn gefa færi á að keyra inn bíla með fatlaða einstaklinga og sérstakri lyftu og öðrum búnaði verður komið hér fyrir til að auðvelda praktísku hlutina.”

Þannig er ný reiðhöll Hestamannafélagsins Harðar kærkomin viðbót við þau endurhæfingarúrræði, sem standa fötluðum einstaklingum til boða á höfuðborgarsvæðinu. Í seinni tíð hefur það færzt í aukana, að t.d. MS-sjúklingar nýti sér hestamennsku til endurhæfingar og með nýrri tækni og betri búnaði verður sífellt auðveldara fyrir fatlaða að liðka og efla skrokkinn með því að “skella sér á bak”.

Lyftan prófuðBerglind Guðmundsdóttir, formaður MS-félagsins, vék í ávarpi sínu sérstaklega að merkri lyftu, sem Léttitækni smíðaði og breytti vörulyftu sem hentaði til að koma fötluðum með einföldum hætti á hestbak. Maðurinn á bak við þetta framtak væri Jón Leví, hestamaður mikill og MS-félagi, sem vildi allt gera til að gera fötluðu fólki kleift að stunda reiðmennsku þrátt fyrir að það fatlaðist. Hann stofnaði til svokallaðs Bakþúfusjóðs, sem í var safnað fé til að láta draum Jóns rætast. Berglind flutti viðstöddum kveðju Jóns Leví, sem var fjarverandi, og lýsti von hans um að lyftan kæmi að góðum notum og fatlaðir gætu notið heilsubótar hestamennskunnar.

Það segir sig sjálft, að það er ekki hlaupið að því að byggja mannvirki á borð við myndarlega reiðhöll og kom fram í máli Guðjóns Magnússonar, formanns Harðar, að þessi reiðhöll “kostar svipaða upphæð og öll félagsgjöld félagsins í 150 ár.”

– hh